Allt eða ekkert. Tvær hliðar á sama peningi

Enginn sykur. Ekkert hveiti.
Ekkert áfengi. Ekkert gos.
Ekkert sælgæti. Ekkert snakk.
Ekkert kruðerí. Ekkert sveittmeti.

Bara kjúlli. Fiskur. Kál. Grænmeti. Vatn. Sætar kartöflur.

Að borða EKKERT af einhverju eða borða ALLTOF mikið af því eru tvær hliðar á sama pening.

Vík burt! þú sykur sonur Satans EÐA flórsykurslikja út á kinn af tólfta Dunkin Dónöttsinum.

Ekki öreind af Dórítós í radíus við munnvikin, EÐA klára pokann á núlleinni.

Hvítt hveiti er orsök alls ills, EÐA hendast eins og vannærð dúfa og tæta upp brauðhleifinn.

Hvorutveggja eru öfgar.

Öfgar geta aldrei orðið lífsstíll.
Öfgar endast aldrei.
Öfgar skapa neikvætt samband við mataræði og líkamann.

Öfgar eru óheilbrigði. Í hvora áttina sem er.

Það fitnar enginn af hóflegum skömmtum af sælgæti, snakki eða kruðeríi.
Og oft geta slíkir reglulegir litlir skammtar komið í veg fyrir skjálfandi hendur tætandi upp Kúlusúkk poka í frústrasjón og vanþurft eftir margar vikur á bannsvæðinu.

Stórkostlegt magn er það sem bætir farangri í skottið.
Risaskammtar vekja upp neikvæðar tilfinningar og svekkir sjálfstraustið.

Þú getur borðað hvað sem þú vilt ef hófsemin er vegvísirinn.
Þetta er veganesti helgarinnar.