Ímyndaðu þér að þu ætlir að bjóða Vigdísi Finnbogadóttur í mat allan janúar.
Sæl Vigdís.
Gakktu í bæinn.
Við byrjum fyrstu 10 dagana á að drekka bara græna djúsa því við þurfum að hreinsa okkur af gjálífi desember mánaðar. Við þurfum að refsa okkur fyrir allar Sörurnar og blóðga bakið fyrir Nóa konfektið.
Þegar við erum búnar að pissa út öllum syndunum ásamt þrjátíu Maríubænum hefst langafasta því við ætlum að svelta okkur tvo daga í viku.
Þú veist Fimm-Tveir… það svínvirkar.
Þú munt samt upplifa svima, súrrealíska svengd og blóðsykursfall . En þú meikar það alveg. Allt fyrir buxnastrenginn Vigga mín.
Þegar við gefumst upp á hungrinu um miðjan mánuðinn ætlum við að fara í “lókarbið”.
Byrja daginn á að þræla í okkur smjörkaffi.
Nokkur kálblöð og hvítur fiskur í hádeginu.
Kvöldmatur er kjúkling og brokkolí.
En nóg af smjöri og mæjó. Og smá súr andremma.
Kartöflur? Hrísgrjón?. Ertu brjáluð manneskja? Varstu ekki forseti?? Kolvetni eru afkvæmi Satans.
Við ætlum að verða mjóar á árshátíðinni.
Eftir að borða sama matinn alla daga síðustu tvær vikur janúarmánaðar og verið pirraðri en fimm ára barn á Sinfoníutónleikum, springum við á limminu í lok mánaðar og gefum skít í þetta heilsukjaftæði. Við tætum upp Pringles stautinn í hungurkasti Dísa mín. Einu sinni smakkað, þú getur ekki hætt… og þrykkjum öllum flögunum í ginið í mótþróa við heilsulífinu. Beint uppúr dollunni í húmi nætur í hnipri sitjum við tvær saman úti í horni í eldhúsinu.
Vopnaðar skeið skundum við rakleiðis að frystinum og skóflum Kjörís beint úr boxinu þar sem eina ljóstýran er opinn ísskápurinn.
Þjakaðar af samviskubiti og vonleysi töltum við Vigdís inn í febrúar með enn eitt nýársheitið kramið undir samanvöðluðum Dórítos poka sem var slátrað í frústrasjón.
Nei þú myndir ekki bjóða þessari stórkostlegu konu uppá slíka vanvirðingu. Þú myndir ekki einhæfni og þurrelsi og svekkelsi í mataræði.
Þú myndir draga fram fínasta mávastellið úr skápnum
þú myndir fara á pinterest, bloggsíður, uppskriftabækur og elda hollt og gott.
Gott litríkt salat. Gómsætan fisk, kjöt, kjúkling með skemmtilegu ívafi. allskyns gott meðlæti og líka kolvetni. matur sem nærir bæði líkama og sál
þið mynduð setjast niður og njóta matarins. Leggja frá þér hnífapörin milli bita, tyggja, kyngja. Velta fyrir ykkur bragðinu af matnum.
Tala saman um menn og málefni. Heima og geima.
Hvernig væri að setja sér það markmið þennan mánuðinn að ímynda sér að borða með Vigdísi í stað þess að fara í drastískar aðgerðir með refsivöndinn í mat og drykk.
Að njóta augnabliksins þegar við borðum. að borða með gjörhygli. að virða líkamann með góðri næringu.
Að vera til staðar í máltíðinni fullnægir þér í huganum og við þurfum að borða minna.