Naglinn er kjötæta per exelans og það er ekki máltíð nema að dauð skepna liggi á disknum. En nú er Veganúar í algleymingi sem er átak til að kynna fólk fyrir vegan lífsstílnum. Það er svo mikilvægt að vera fordómalaus og með opinn huga þegar kemur að fjölbreytni í mataræði, og Naglinn mun leggja sitt af mörkum til Veganúar með að elda meira af kjötlausum dinnerum og birta uppskriftir sem eru vegan-vinalegar eins og þessa hindberjaostaköku. Þessi ostakaka er svo einföld að jafnvel Naglinn með sína þumalfingur ræður við verkefnið og það heppnast stórkostlega. Það þarf ekki að baka svo það er bara að gumsa öllu hráefninu saman og henda í nokkur lítil form (ramekins) eða eitt stórt 20 cm smelluform. Inn í ísskáp yfir nótt og voilá… unaðsleg ostakaka klár til innbyrðingar daginn eftir.
Botn
150 g Himnesk hollusta haframjöl (eða glúteinfrítt haframjöl)
2 msk MONKI möndlusmjör
2 msk agave síróp
Fylling
1 dós Violife smurostur hreinn
korn úr vanillustöng eða vanilluduft
1 msk NOW kókoshnetuhveiti
100 ml NOW erythritol
1 skófla Sunwarrior vegan vanilluprótínblanda
Topping
100g frosin hindber
1 dl vatn
3 msk chiafræ
Aðferð:
- blanda saman öllu í botninn þar til orðið að klístruðu deigi.
- pressa því niður í botninn á 20 cm smelluformi (eða nokkur minni form ef notuð)
- Blanda saman öllu í fyllinguna með töfrasprota og gumsa yfir botninn. Henda í kæli.
- Sjóða saman hindber og chia fræ þar til vatnið gufað upp. Taka af hellunni og leyfa að standa í 5 mínútur.
- Smyrja síðan hindberjatoppnum ofan á kökuna og láta standa yfir nótt í ísskápnum
- Opna ísskáp daginn eftir vopnaður gaffli og ráðast á dýrðina.
Allt hráefnið fæst í Nettó. Útópíu heilsumelsins. Heilsudagar Nettó eru rétt handan við hornið með fullt af tilboðum og afsláttum af allskonar gleði.
Næsta matreiðslunámskeið Röggu Nagla, Nettó og NOW verður haldið í Hafnarfirði 19. janúar. Aðeins tvö pláss eftir þegar þetta er skrifað.
Einnig verður matreiðslunámskeið á Hvolsvelli 18. janúar. Það eru nokkur pláss eftir þar þegar þetta er skrifað.