Utan þjónustusvæðis
Heilsusamlegar ráðleggingar fyrir heilsumeli á faraldsfæti
Hvort sem leiðin liggur útfyrir landsteinana eða bæjarmörkin er fólk með skema í hausnum um að nú eigi að vera góður við sig.
“Ég er í fríi og má sukka þar til vélindað fyllist.”
“Ég ætla sko EKKI að mæta í ræktina og nú skal étið allt gúrmeti undir sólinni.”
En er það að vera góður við sig að eina líkamlega áreynslan er þramm á verslunargötum og efri skrokkurinn þjálfaður með burði á H&M pokum?
Er það að vera góður við sig að kýla vömbina dag eftir dag svo augun standa útúr höfðinu og kjötsvitataumar leka niður bakið?
Það verður samt að kitla pinnann en það þurfa ekki að vera allar máltíðir alla dagana. Hinar geta vel verið hollar og gómsætar ef við erum með réttu vopnin í vopnabúrinu.
Eins er það ekki afsökun að þegar skipt er um póstnúmer að breytast þá í sorphirðu fyrir sveittar pylsur í hitaboxi og snjakahvítar rækjusamlokur.
Naglinn ferðast um allar koppagrundir krónískan ferðanjálg. og er hagsýn húsmóðir og deilir hér með ykkur áralangri reynslu af að haldast heilsumelur þrátt fyrir rútínurask og nýjar aðstæður.
Matur á flugvelli og í flugvél
Að finna æti sem nálgast að hafa eitthvað hollustugildi og er á sama tíma girnilegt og aðlaðandi á flugvöllum er eins og að finna títuprjón í nálapúða.
Sykursnúðar, smjörugar vöfflur, hófakjötsstrimlar, sveittir borgarar, majónessalöt, skjannahvítar næringarlausar brauðsneiðar og dísætt ropvatn er það sem rennur niður vélindað
Það er ekki aðeins hagkvæmast fyrir budduna, heldur líka mittismálið að vera með sitt eigið nesti á ferðalögum.
Naglinn er ALLTAF með eigin mat á ferðalögum og með doktorsgráðu í faginu, nestuð í topp í með Sistema kæliboxið úsandi af heilsumeti (Sistema vörurnar fást í Nettó).
Naglinn er oft spurð hvað megi fara með í gegnum öryggisleitina.
Allt sem ekki er vökvi er í lagi og flýgur í gegn.
Kjöt, fiskur, grænmeti, samlokur, kartöflur, hrísgrjón, salöt, ávextir, eggjahvítupönnsur. Eldaður hafragrautur hefur meira að segja fengið góðkenningu í Leifsstöð
Þó eru kaffibollakökur öruggari kostur en hafragrautur því það er enginn vökvi í þeim. Kremið skaltu hafa í aðskildu boxi. Af fenginni reynslu frá JFK flugvelli í NYC þar sem Naglinn fékk fylgd út úr öryggisleitinni… löng saga….
Allan vökva þarf að setja í minni box og síðan í lítinn plastpoka.
Jógúrt, hnetusmjör, skyr flokkast stundum sem vökvi og er öruggara að setja í lítil Sistema box og í plastpoka.
Sama gildir um salatdressingar, sinnep og sósur.
Prótínduft í poka flýgur í gegn þó það líti oft grunsamlega út. Hundarnir fúlsa við því, enda ekki að rífa í járnið.
Gott ráð er að frysta vatn í flöskum til að vera með kalt vatn og nýtist í leiðinni sem kælingu fyrir gúrmetið nestistöskuna.
Svo má fylla á flöskuna á tojlettinu á flugvellinum þegar lent er.
Gott snarl á flugferðum eru ávextir, hnetur, möndlur, saltstangir, heimagerð prótínstykki, niðurskorið grænmeti (gulrætur, agúrka, sellerí), harðfiskur, þurrkað kjöt (beef jerky).
Flugvél
Til að spara pláss í töskunni og stuðla að hámarksþægindum er þjóðráð að vera í æfingaskóm í flugvélinni.
Þeir sem bjúgast á flugferðum þakka líka fyrir að vera í þægilegum og rúmgóðum skóm þegar lent er og fæturnir eins og á blöðrusel.
Kálfar Naglans blása upp í löngum flugferðum eins og gasblaðra á sautjánda júní og hefur nú brugðið á það ráð að vera í Zero Point compression kálfahlífum í flugvél eða Under Armour þrýstibuxum í flugvélum.
Nærstaddir stara bara úr sér glyrnurnar á neonskæru staurana.
Matur í útlöndum
Gott ráð er að nýta sér dásemdir internetsverslunar og panta allskonar gúmmulaði á áfangastað. Þá sleppurðu við útsprengda ferðatösku af matarkyns.
Ef möguleiki er fyrir hendi mælir Naglinn með að leigja íbúð í útlandinu með aðgang eldhúsi þar sem hægt er að útbúa eigin mat.
Þá má njóta hafragrautsins á morgnana, kjöt og fiskur og grænmeti í kvöldmat, og útbúa nesti fyrir þramm dagsins.
Naglinn á lítinn ferðablandara sem ratar alltaf í veskuna og þá má njóta prótínbúðings, smoothie, avocadobúðings, súkkulaðimússu eftir æfingu, milli mála og á kvöldin.
Bamixinn fær oftast líka að fljóta með.
Það má jafnvel fjárfesta í hræódýrum handþeytara á áfangastað og henda í flöff.
Naglinn notar alltaf vefsíðuna Air B’nB til að finna íbúð á góðum stað á áfangastað.
Þá má versla í súpermörkuðum sem er bæði billegra en að væna og dæna úti, en þú stjórnar líka betur innihaldi og kaloríum sem renna niður ginið.
Skoðaðu heilsubúðir, heilsuhillurnar, bökunarhillurnar. Googlaðu fæðubótarefnaverslanir (leitarorð: health food store, food supplement, protein powder, sport supplements). Spurðu liðið á heilsuræktarstöðinni hvar sé best að versla.
Farðu í slátrarann, fisksalann, grænmetissalann.
Það er fátt skemmtilegra en að uppgötva nýjungar í heilsulífið í útlandinu.
Hótel:
Ef þú ert á hóteli þá er hægt að hringja á undan og fá örbylgjuofn eða ísskáp á herbergið
Ef planið er að vera í nokkra daga er hægt að elda kjöt/fisk fyrirfram og frysta og leyfa því svo að afþíðast á herberginu. Það helst kalt í góða 15-20 tíma.
Flest morgunverðarhlaðborð bjóða upp á hafragraut, soðin egg, ávexti, gróft brauð. Svo má nappa ávöxtum til að hafa sem nesti yfir daginn. Svo má alltaf hoppa inn í næsta súpermarkað og sjoppa ávexti, hrökkbrauð, hrískökur, kotasælu, jógúrt, hnetur.
Veitingastaðir
Það er auðvelt að snæða hollt ef rétt er valið á veitingastöðum. Leitaðu að orðum eins og bakað, grillað, gufusoðið, soðið. (baked, grilled, broiled, steamed). Fá dressingu til hliðar við salat, eða biðja um balsamedik/ólífuolíu.
Sleppa sósu með kjötréttum eða fá hana til hliðar og dýfa gafflinum í til að fá bragðið.
Biðja um aukasalat. Sleppa öllu mæjónesdóti.
Það má líka skoða matseðilinn á vefnum og ákveða fyrirfram. Flestir veitingastaðir bjóða uppá hollustu, það er bara að velja rétt af matseðlinum:
Indverskur: Tandoori réttir með gufusoðnum/soðnum grjónum. Raita sósa. Sleppa naan brauði og rjómaréttum.
Thailenskt: grillaðir kjöt og fiskréttir, gufusoðið eða bakað grænmeti,. Steikarsalöt. Wok réttir með brúnum grjónum til hliðar. Hrísgrjón frekar en núðlur.
Steikhús/amerískt: magurt kjöt, grillaður kjúklingur, grillaður fiskur með kartöflu, salatbar. Sósa til hliðar eða sleppa.
Víetnamskt: pho súpa, grillspjót, grillaðir réttir, gufusoðin grjón.
Japanskt: nigiri eða maki rúllur, sashimi, yakitori grillspjót, Sleppa öllum mæjónesrúllum, djúpsteiktu. Sashimi og hvít hrísgrjón.
Tyrkneskt: grillspjót með hrísgrjónum, bulgur, tzatziki, hummus.
Franskt: steik með bakaðri kartöflu, maís og salat. Rotisserie kjúklingur. Sniglar. Fiskréttir bakaðir/grillaðir með sósu til hliðar.
Ítalskt: Aðalréttir af steik, túnfiski, fiski. Fá sósu til hliðar. Sleppa rjómapasta og pizzum.
Líkamsræktarstöðvar
Að kynnast ræktarmenningu annarra landa er eitt helsta áhugaefni Naglans á framandi slóðum.
Það er nauðsynlegt að kitla pinnann með góðum mat og skunda útaf brautinni með nokkrum sveittum máltíðum í útlandinu, og þú eignast aldeilis inneign fyrir sukkinu með hamagangi á Hóli.
Það þarf ekki að þýða skipulagningu á G8 fundi að ætla að hreyfa sig í fríinu.
Æfingafatnaður eru þynnildistutlur sem taka ekkert pláss og þú varst hvort eð er í skónum á leiðinni.
Flest hótel hafa líkamsræktaraðstöðu en oftar en ekki er það eins og gamall kústaskápur með niðurtogi ofan á þrekhjóli frá áttunda áratugnum.
Eða tækjakosturinn er af svo skornum skammti að rennbleyta þarf höfuðleðrið til að ná einhverjum hamagangi útúr járninu.
Naglinn hefur séð allar varíasjónir, allt frá einu sippubandi og þrekhjóli frá stríðsárunum og upp í flottara hótelgymm en sjálfar Laugar.
Googlaðu næstu líkamsræktarstöð, CrossFit stöð, jógapleis eða garð við hótelið eða íbúðina. Notaðu leitarorð eins og: “fitness” “gym” “training center” “park” “crossfit” “box” áður en haldið er af stað. Spurðu á hótelinu hvar er næsta góða líkamsræktarstöð.
Naglinn hefur æft í hverju einasta krummaskuði og stórborg sem maðurinn hefur verið alinn á þeim tíma og aldrei lent í veseni með að sjoppa vikupassa í líkamsræktarstöðvum. Sjö, níu, þrettán.
Þú þarft ekki að eyða lunganu úr deginum í að djöflast, tuttugu mínútna hringþjálfun á hárri ákefð blífar súper og eftirbruninn heldur áfram allan daginn meðan þú mundar Canon-inn á markverðar minjar.
Skokkhringur er “sightseeing” í leiðinni og alls staðar má finna almenningsgarða til ástundunar djöfulgangs í formi hringþjálfunar – froskahopp, fjallganga, hopp á bekk, armbeygjur má gera án nokkurrs tækjabúnaðar.
Þetta er ekki lífsstíll ef þú getur eingöngu stundað heilsuna í einu póstnúmeri heimsins.