Blómkál er guðsgjöf náttúrunnar til heilsugosa, því það er eins og kameljón og getur brugðið sér í allra kvikinda líki. Blómkál eykur líka magn af mat með aðeins örfáum karólínum. Fyrir þá sem mæla lífshamingju í magni af mat eins og Naglinn er slík viðbót eins og að fá símtal frá Brad Pitt með boð í þrjúbíó…popp og kók.
Naglinn hefur undanfarið fengið klámfenginn áhuga á þessu dásamlega grænmeti og hvernig það getur nýst í allskonar fyrir átvögl, og mun afrakstur þeirrar tilraunastarfsemi fá sérstakan dagskrárlið næstu misserin.
Fyrst kynnum við á svið: Skinhoraða súkkulaðimússu. Þessari svipar mjög til kókosmússunnar sem einhverjir lesendur kannast eflaust við.
Þetta stöff góðir hálsar er haukur í horni fyrir alla heilsumeli, áferðarperra, matargöt og þykkelsisseggi. Naglinn gerir risaskammt með nokkurra daga millibili og á í dollu í ísskápnum því þessi hitaeiningasnauða himnasending er ekki bara ljúffeng undir tönn, heldur bregður hún sér í hlutverk þykkelsis og mjúkelsis í hinum ýmsu bakstursævintýrum.
Uppskrift
1 blómkálshaus, niðurskorinn í blóm
1 msk Hershey’s kakó *
2 msk NOW erythritol
1 msk Sukrin Gold
NOW Better Stevia karamelludropar
klípa sjávarsalt
Allt stöffið í mússuna fæst í Nettó.
* Naglinn notar Special dark Hershey’s kakó sem fæst eingöngu í US of A, en venjulegt Hershey’s fæst í Nettó og blífar fínt líka.
Aðferð:
1) Sjóða blómkál í potti í 20-25 mínútur eða örra í Sistema gufusoðningargræju í 7-10 mínútur. Blómin eiga að vera vel mjúk.
2) Sigta vatnið frá og skella blómunum aftur í pottinn, eða dömpa gufusoðnum blómum í djúpa skál.
3) henda öllu stöffinu í pottinn og mauka með töfrasprota. Geymt í kæli og langbest ískalt. Það má jafnvel frysta þessa gleði og borða eins og ís.
Naglinn notar mússuna… mússí mússí…. aðallega í eftirfarandi:
– kaffibollakökur
– bakaða hafragrauta
– prótínbrauð
– diet kók súkkulaðiköku
– prótínbúðing (gerir hann enn þykkari.. þú þarft hníf og gaffal í aðgerðina)
– súkkulaðiavókadómússu
– til að dýfa puttunum í þegar ísskápurinn er opnaður… djók…nei..jú..nei…