Naglinn var á matreiðslunámskeiði hjá snillingnum hjá Protein Pow í London fyrir skömmu þar sem við lærðum að útbúa allskyns gómsæti úr prótíndufti, enginn sykur, ekkert hvítt hveiti, ekkert smjör… bara horuð hollusta út í gegn.
Þar gerðum við lærlingarnir meðal annars gúmmulaðis pizzu sem hefur ekki vikið úr hugarfylgsnum Naglans síðan enda sérdeilis gómsæt með meiru. Hér verður ekki farið út í fjölda sneiða sem runnu ofan í ginið á átvaglinu, það er á milli Naglans og London.
Margir spurðu um uppskriftina að flatbökunni á Facebook enda ekki skrýtið þar sem myndirnar frá námskeiðinu voru ansi klámfengnar og klúrnar og vöktu blauta drauma hjá mörgum.
Prótín pönnupizza
4 stórar sneiðar eða 8 litlar
Innihald:
2 skóflur NOW pea protein (Fjarðarkaup, Lifandi markaður, Nettó)
150g eggjahvítur
4 msk möndlumjólk
2 msk NOW Psyllium Husk (Fjarðarkaup, Lifandi markaður, Nettó)
Aðferð:
1. Öllu blandað saman í þykka leðju og hellt á sjóðandi heita pönnu sem hefur verið smurð í spað með kókosolíu eða spreyjuð í drasl með PAM.
2. Kokka þar til orðin þurr á mallakút og í köntunum.
3. Þá kemur snúningurinn og hann er pínu snúinn… no pun intended 🙂
Annaðhvort að hvolfa yfir á aðra heita pönnu, eða nota tvo spaða til að sveifla henni á bakið án þess að hún klofni í sundur eins og afstaða þjóðar til ESB.
4. Kokka í nokkrar mínútur og þá er botninn klár.
5. Smyrja með tómatpúrru og toppa með því sem hugurinn girnist, spínat, paprika, tómatar, rauðlaukur skinka, kjúlla, kotasælu, eða hvað sem fær þig til að tikka. Horaður ostur (Fjörostur) ofan á det hele…og henda í ofn í nokkrar mínútur til að bræða ostinn.
Pingback: Sjoppað í USA | ragganagli