Naglinn er í praktík á spítala og situr mjög oft á löngum fundum og rassakastast frá einni byggingu til annarrar til að ná næsta fundi. Það gefst því oft lítill tími til að setjast niður og snæða í rólegheitum. Þegar um er að ræða óseðjandi svarthol eins og Naglans er nauðsynlegt að hafa handhæga hollustu í töskunni sem hægt er að troða í smettið í snarhasti. Svo Naglinn hefur brugðið á það ráð að baka haug af hollum og horuðum múffum fyrir vikuna. Uppáhalds uppáhaldið eru gulrótamúffur og súkkulaðikókosköppkeiks.
Súkkulaðikókosköppkeiks
300 g eggjahvítur (c.a 10 stk)
2 msk NOW kókoshnetuhveiti
2 mæliskeiðar HUSK
2 msk ósætað kakó
1/2 msk Sukrin/NOW erythriol
1/4 tsk xanthan gum
NOW kókoshnetudropar (fást í Lifandi Markaði)
1. Stilla ofninn á 160 °C
2. Hræra öllu saman með töfrasprota og hella í sílíkonform
3. Baka í 25 mínútur
Útúr þessu koma 12 litlar snúllur eða 6 stórar. Einn skammtur eru 6 litlar eða 3 stórar.
Toppað með horuðu súkkulaðikremi og ósætuðum kókosflögum.