Sítrónulummur

Eggjahvítur spila stóra rullu í morgunstund Naglans þar sem þeim er slátrað samhliða grautargleði til að fá gæðaprótín í sársoltna vöðvana eftir föstu næturinnar. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem sleppa morgunverð eru feitari en þeir sem slafra í sig eftir að hafa slefað á koddann, því þeir bæta upp fyrir það með að borða yfir sig á kvöldin. Hungrið lætur ekki að sér hæða.

Sítrónulummur

Eggjahvítur eru besti prótíngjafi sem völ er á og eru eins og kameljón því það má breyta þeim í allra kvikinda líki: flöff, pönnsur, lummur, sjeika, ommilettu, marengs,  eggjahvítuíssúkkulaðiköku og ég veit ekki hvað og hvað….

Sítrónulummur

1 skammtur

5 eggjahvítur (150 ml)
1 mæliskeið HUSK eða 1/2 tsk xanthan gum
1 tappi Kötlu sítrónudropar
1/2 tsk lyftiduft

* HUSK og/eða xanthan þykkir deigið þegar ekkert glútein er til staðar til að binda það saman

1. Allt sett í blandara eða hrærivél

2. Hræra í 1-2 mínútur

3. Gumsa 1 matskeið af deigi á heita pönnukökupönnu. Þú getur bakað þrjú til fjögur kvikindi í einu.

Sítrónulummur á pönnu

4. Þegar bobblur myndast á toppnum skal þeim snúið á rassinn og leyft að dunda sér í 2-3 mínútur. Þú vilt hafa þær bakaðar alveg í gegn en ekki hráar í miðju… það getur verið stemmningsbrjótur.

Dásamlegt með sykurlausri bláberja- eða stikkilsberjasultu.

Sítrónulummur-2