Blóðgað bak

Hangikjöt, kalkúnn, hamborgarahryggur, rjúpur, sætar kartöflur, brúnaðar kartöflur, rísalamand, frómas, konfekt, sörur… ólympískt át undanfarinna daga liggur nú og gerjast í kviðarholinu.
Fingur eru þrútnir, liðamót í mauki, augun sokkin, kviðurinn bjúgaður. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um hófsemi  eru enn ein jólin að baki þar sem þú fórst langt yfir strikið og tróðst í skjóðuna þar til yfir flæddi.

Sjálfið er niðurtætt af samviskubiti sem gæti brauðfætt meðalstórt Asíuríki.
Mórallinn ætlar holdið lifandi að éta.

Fyrirgef mér því ég hef syndgað…. og af stað er drattast á annan í jólum í helv… ræktina sem mun frelsa oss frá illu.
En nú skal blaðinu sannarlega snúið við og verða betri maður í dag en í gær.

Fésbókin logar af stöðuuppfærslum um bót og betrun

Nú þarf ég að mæta í ræktina til að refsa mér fyrir átveislurnar.”
Ég hlekkja mig við hlaupabrettið næstu daga til að bæta upp fyrir maníska ítroðslu.”
Vatn og gulrætur í janúar til að bæta upp fyrir maraþonátið.”
Nú hefst detoxið.”

Naglanum þykir afar dapurlegt að sjá og heyra yfirlýsingar um að nú þurfi að refsa sér fyrir velmegunarát með æfingum og mataræði.

Þú ÞARFT að fara í ræktina til að brenna upp x mörgum kaloríum sem annars setjast á skottið.
Slíkur hugsunarháttur tengir heilsusamlegt líferni neikvæðum tilfinningum – þú æfir af illri nauðsyn til að bæta upp fyrir aðra hegðun en ekki af ánægju né löngun.

Exercise is not punishment

Líkamleg hreyfing á að tengjast jákvæðri tilfinningu um að gera sitt besta þann daginn, losa streitu. Styrkingin á ekki að koma úr brenndum kaloríum úr jólaveislunum eða laugardagsnamminu til að bæta innanétna samviskuna.
Styrkingin fyrir að mæta á æfingar á að koma úr betri líðan og bætingum – að geta meira í dag en í gær. Af því að tilfinningin að sigra sjálfan sig er “best í heimi”.

Hið sama hefur gilt um hollt mataræði.  Þú ÞARFT að éta brokkolí og epli til að þagga niður í siðapostulnum í hausnum á þér sem hamast við að minna þig á eigin veikleika.

Að tengja hollt mataræði við uppbætingarhegðun fyrir bílífi jólanna býr til neikvætt samband við hafragrautinn – hann er refsivöndurinn fyrir allt rísalamandið sem þú slátraðir tuttugustaogfjórða.. og fimmta og sjötta.

Oftar en ekki er stiginn dramatískur darraðardans við dítoxiðnaðinn og sultarólin þrengd inn að merg.
Úr verður neikvæður spírall af sjálfsniðurrifi sem ræktarferðir og svelti eiga að bæta fyrir sem leiða aðeins til sprengingar á limmi og étið sig til óbóta aftur á næsta allsnægtarborði.

Diet_Cycle

Í þessum spíral verða ræktarferðir og hollt mataræði jafn ánægjuleg og seta í tannlæknastólnum … eitthvað sem þú ÞARFT að gera en VILT engan veginn.
Það er nefnilega mergurinn í málinu að þegar þú breytir hvernig þú hugsar um hlutina, þá breytist þín upplifun af þeim.

Þegar þú drattast af stað eftir jólaítroðsluna, hugsaðu “mig langar í ræktina til að nýta alla orkuna úr jólaboðinu hjá Júllu móðursystur til góðra verka.”

Ég er öflugri en Bugatti með tankinn stútfullan og get því rifið í járn eins og hamhleypa
Ég get sprett úr spori eins og hýena á steppum Afríku og jafnvel náð fram bætingum í dag fyrir næstu æfingu.”
Þegar þú vaknar á þriðja degi jóla og eina spjörin sem passar yfir bjúgaða vömbina er gamli Don Cano joggarinn er rétt hugsun að þig langi í hafragraut því þér líður betur af hreinu mataræði sem mettar vel. Grænmeti og ávextir eru gull jarðarinnar sem streyma vítamínum um æðarnar og gefa þér gæðaorku.

Við förum í ræktina til að fá eftirbrunann og nýta þannig orkuna sem rennur ofan í kokið í uppbyggingu vöðva. Við djöflumst til að eiga innistæðu fyrir næsta áti, til dæmis á gamlárs, en ekki til að refsa okkur fyrir eitt eða neitt.

Það er ekki til neins að dvelja í hangikjötssósaðri fortíðinni með sorg í hjarta og sár í sinni.
Að velta sér uppúr kaloríuveislum liðinnar viku nærir niðurrifið á sjálfinu og við verðum þjökuð af kvíða með sjálfsálitið liggjandi ofan í postulíninu.

Að ætla svo að bæta upp fyrir niðurtætta sjálfsmynd og útþaninn kvið með þvingaðri rækt og svelti býr til spíral hlaðinn neikvæðum tilfinningum við hollustulífið.
Slíkur spírall getur aldrei orðið heilsusamlegur lífsstíll.