Eitt það besta sem Naglinn veit er volgur kanilsnúður, nautnin af honum í munnholinu losar út endorfín í hættulegu magni eða kannski er það bara hinn stórhættulegi kanill sem veldur vímuáhrifum. Nýlega komu nefnilega fram þær fregnir að kanill í miklu magni væri varasamur heilsunni. Samkvæmt því ætti Naglinn að vera löngu komin undir græna torfu því heilu kílóunum er slátrað á heimilinu í hverjum mánuði. Regluleg ferð er gerð í heildverslun fyrir matvælaiðnaðinn hér í København og sjoppaður kanill í iðnaðarpakkningum, ásamt fimm kílóum af eggjahvítum í brúsa (fyrir pönnsurnar og búðingana), risastórum HUSK pakka og fleira skemmtilegu í risapakkningum.
Og hvað er svo gert við allan þennan stórhættulega iðnaðarkanil? Munið þið eftir iðnaðarsaltinu fyrr á árinu?
Nú kanillinn er brúkaður mestmegnis í morgungraut í hinum ýmsu útfærslum, eggjahvítupönnsur, kúskús, sætar kartöflur og auðvitað hollustubakstur á allskonar gúrmeti og gleðilegheitum.
Nýjasta tilraunastarfsemin er hollur kanilsnúður sem er svo unaðslegur undir tönn að það ætti að skrifa ljóð um hann. Mjúkur eins og nýþveginn barnsrass svo áferðarperrinn fær raðfullnægingu, kanillinn harmónerar dásamlega við kókosinn svo bragðlaukarnir vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið.
Hollur kanilsnúður
4 bitar
Deig
1 skófla NOW prótínduft (vanillu)
1.5 dl kókoshveiti (Dr. Goerg
1 tsk xanthan gum (NOW fæst í Nettó)
1/2 tsk lyftiduft
klípa af salti
1 tsk Erythritol
2 eggjahvítur
2 dl vatn
Fylling
4 msk möndlumjöl
4 msk Erythritol
4 msk kanill (ætli maður deyi ekki á morgun)
4 msk vatn
1. Stilla ofninn á 200 °C
2. Allt hráefni í deigið sett í skál og hrært saman í bollu
3. Fletja deigið út í ferhyrning og sáldra kókoshveiti yfir deigið áður en það er rúllað út. Loksins fékk Naglinn brúk fyrir kökukeflið.
4. Blanda saman öllu gumsinu í fyllinguna og hræra þar til verður að sæmilega þykkum massa.
5. Dreifa fyllingunni yfir deigið.
6. Rúlla deiginu saman. Þetta verkefni er mjög erfitt fyrir fólk með tíu þumalputta og gott að nota smjörpappírinn til aðstoðar, svipað og með sushi rúllur. Skera rúlluna í þrennt
7. Baka í 20-25 mínútur þar til orðið gullbrúnt að ofan. Laaangbest að gúlla þá ylvolga og nýkomna úr ofninum. Þeir geymast vel í 4-5 daga og þá er bara að örra kvikindið í 10-15 sek fyrir átu.
Dásamlegt í eftir æfingu gleðina eða hafa tilbúið á kantinum þegar sætupúkinn bankar á dyrnar.