Naglinn fær ofsakláða og eyrnabólgu þegar fólk vill endilega kjamsa á fitubrennslutöflum “til að flýta fyrir fitutapi”.
Í fyrsta lagi vill Naglinn leyfa breyttu mataræði og æfingum hafa sín áhrif svo líkaminn læri sjálfur að vinna í verkefninu áður en gripið er til utanaðkomandi aðstoðar í formi dufthylkja.
Í öðru lagi er stórkostlegt ofmat á áhrifum flestra fæðubótarefna. Sérstaklega þegar kemur að fitubrennslutöflum, þvert á það sem margir halda brenna þær ekki fitu, einungis niðurskurður á hitaeiningum og æfingar brenna fitu. Þær geta hins vegar dempað matarlystina sem þýðir að minna er borðað sem að sjálfsögðu leiðir til fitutaps. Eins innihalda flestar fabrikkutöflur örvandi efni á borð við koffín sem gefur okkur auka „boost“ á æfingu og við tökum betur á því sem aftur leiðir til meira fitutaps.
Vissulega gera mörg fæðubótarefni sitt gagn, t.d hreint mysuprótín, Glútamín, BCAA, Koffín, Yohimbine, Kreatín, Beta Alanine o.fl.
Hins vegar í mörgum tilfellum eru neytendur blekktir með kílómetra löngum lista af innihaldi sem getur alveg eins verið skrifað á hebresku. Hvaða leikmaður veit til dæmis hvað Carboxymethylcellulose er? Hvað með Hydroxypropyl Cellulose eða Titanium Dioxide?
Neytandinn er látinn halda að fyrst varan inniheldur svona vísindaleg fræðileg heiti þá hlýtur þetta að vera algjör eðalvara og byggja upp vöðva og skafa mör mun hraðar en aðrar vörur eins og lofað er í auglýsingunni.
„Ég hlýt að vakna helmassaköttaður á morgun fyrst ég á svona dunk inni í skáp.“
“Ef ég þrýsti nógu mörgum hylkjum, belgjum, töflum, dufti og pillum ofan í kokið tálgast af mér á hraða sem getur klofið kjarnorku.”
Eru brostnar væntingar og tómur peningapungur sem aumingjans sjálfið þarf á þessum síðustu og verstu?
Gefðu þér tíma í verkefnið, gerðu rétt fyrir líkamann og leyfðu honum að vinna með þér. Hættu að reiða þig á skyndilausnabransann því framleiðendur margra fæðubótarefna hlægja alla leið í bankann með peningana þína í vasanum.