Viltu hraðari grunnbrennslu? Lyftu þá lóðum.

Viltu hraðari grunnbrennslu?
Viltu bræða fitu af lærum meðan þú situr á bossanum og horfir á síðasta þáttinn með Jóni Snjó í Krúnuleikunum?

Þegar fólk heyrir um fitubrennslu kemur strax upp í hugann fleiri klukkutímar af þolæfingum.
Slefandi á þrekstiga.
Hlekkjaður við hlaupabretti.
Sveittur eins og grís á teini á ræktargólfi.

Þungar lyftingar eiga ekki eins greiðan aðgang að ímyndinni um fitubrennslu.

En þær eru þó lykillinn að langvarandi árangri þegar kemur að fitutapi og hröðum heilbrigðum efnaskiptum.

Þegar við hömumst eins og rolla á girðingastaur í þolæfingum einum saman og hitaeiningar dagsins duga ekki til að halda gamalmenni í dauðadái þá verður líkaminn miður sín.

Hann boðar til krísufundar.

Strákar!! Þessi vitleysingur sem á þennan líkama er að hlunnfara okkur um innkomu á orku. Við þurfum að draga saman seglin og byrja að spara.

Rétt eins og fyrirtæki í rekstrarörðugleikum eru settar sparnaðaraðgerðir í gang til að spara orku.

Slökkva ljósin. Skrúfa fyrir ofnana. Loka gluggunum.

Líkaminn verður nískur á hitaeiningabrennslu á æfingum.
Það verður minna um daglega hreyfingu því hann er að spara þá litlu orku sem til er.
Út með vöðvana því þeir eru svo orkufrekir.
“Útúr mín bíl og jeg mener det”

Í nútímasamfélagi þar sem við höfum greiðan aðgang að mat og hreyfum okkur mun minna en forfeður okkar þá eru hröð efnaskipti okkar haukur í horni til að viðhalda fitutapi og halda okkur nálægt kjörþyngd.

 

Hvort heldurðu að sé betra fyrir langtíma árangur.
Hæg efnaskipti sem eins og hagsýn húsmóðir í Nettó spara hverja kaloríu sem þau láta frá sér?
Eða efnaskipti sem tæta upp kaloríur meðan við sitjum á bossanum fyrir framan tölvuna?

Það er fátt sem keyrir efnaskiptin jafn mikið upp og þungar lyftingar.

Aftur kallar hann á krísufund.

Strákar! Þessi brjálæðingur er að láta okkur lyfta þungum hlössum. Ef við ætlum ekki að kremja félaga okkar í beinadeildinni verðum við að sterkari til að höndla þetta álag aftur í framtíðinni
Þess vegna þarf hver kaloría sem kemur inn næsta sólarhringinn að fara til strákanna í vöðvadeildinni. Þeir þurfa byggingarefnið núna.
Fitusöfnunardeildin verður verkefnalaus á meðan.

 

En hvernig á ég að lyfta?
Það er aragrúi af prógrömmum á netinu með flókin æfingakerfi sem gætu klofið atóm.
En það þarf ekki Nóbelsverðlaun í eðlisfræði til að stunda áhrifaríkar lyftingaæfingar.

Láttu nokkrar þungar fjölliðaæfingar verða brauðið og smjörið í æfingakerfinu.

*Hnébeygjur
*Réttstöðulyfta
*Axlapressa
*Bekkpressa
*Rassabrú
*Róður
*Framstig/Afturstig
*Tvíhöfðarétta
*Þríhöfðadýfur

-Notaðu stöng eða handlóð eða ketilbjöllur
-Lyftu 3-4 daga í viku
-Framkvæmdu 6-12 endurtekningar
-Gerðu 3 sett af hverri æfingu
-Hvíldu 30-90 sekúndur milli endurtekninga

Ef þú getur bætt í þyngdir milli vikna ertu að verða sterkari
Ef þú getur framkvæmt fleiri endurtekningar ertu að verða sterkari
Ef þú þarft að hvíla styttra á milli ertu að verða sterkari.
Ef þú getur gert fleiri sett ertu að verða sterkari
Ef þú getur aukið hreyfiferil vöðvans og farið dýpra með góðu formi ertu að verða sterkari.

 

Að verða sterkari þýðir aukinn vöðvamassi sem þýðir hærri grunnbrennsla.

Skrokkurinn verður mótaðri.
Vöðvar verða harðari.
Þú byrjar jafnvel að sofa betur.
Kynhvötin eykst.
Daglega orkan verður meiri.

Og sjálfstraustið keyrist upp í rjáfur við að slíta þyngra og þyngra járn frá gólfi í hverri viku.

Þarf frekari vitna við?
Rífðu í járnið og slíttu upp stangir.

_________________________
underarmouriceland
Kóði: ragganagli = 20% afsláttur
#samstarf #teamUA