Töff að vera tættur og tjásaður alla daga

Það er stöðutákn að hafa brjálað að gera.
Allt á fullu er ógeðslega töff.
Tættur og tjásaður alla daga.

“Jæja… hvernig gengur?” 
“Allt á fullu eins og alltaf?”

Við setjum okkur kröfur sem fara með himinskautum um frammistöðu og fullkomnun í öllum verkefnum

Ekki fært nema fuglinum fljúgandi að ná þeim.

Velja afmælisgjafir og jólagjafir þar sem viðtakandinn lamast vinstra megin af þakklæti.

Halda matarboð þar sem gestirnir stynja í kúlínarískri fullnægingu.
Baka hundrað múffur með sjö tegundum af smjörkremi fyrir fjáröflun í fótboltanum.

Halda fermingarveislu með fimm týpum af brauðtertum og auðvitað vegan útgáfur líka.

Baka bollur á sunnudögum skreyttar lífrænum graskersfræjum.
Glúteinlausar. Sykurlausar. Vegan.
Og pósta á Instagram.

Taka þátt í Landvættunum og Blálónsþrautinni og Reykjavíkurmaraþoninu og vera á gönguskíðum á veturna og títanhjóli á sumrin og fara í Crossfit og vera í jóga.

Þurfum að njóta gríðarlegrar velgengni í starfi og ná öllum deddlænunum. Að vinna yfirvinnu. Skutla krökkunum.

En vera líka kjörnuð í núvitund.
Stunda jóga og drekka grænt Macha te.
Vera á ketó.
Fara á kakóseremóníu.
Stunda kæliböð.

Hringja oftar í mömmu.
Hitta vinkonurnar í happy hour.
Og vera alltaf í spjörum sem eru í móð.

Heimilið eins og uppstillingarbás í IKEA.
Túlipanar í vasa. Omaggio vasa.
Epalsófi tignarlegur á gæruskinni í mínímalískri stofu.

Fullkomnunarárátta er gríðarlegur streituvaldur.

Fullkomnun er fangelsi. Fullkomnun lamar þig.
Fullkomnun brennir þig út.

Fullkomnun kulnar og örmagnar í laumi bakvið hurð.

Þegar við slefum í átt að fullkomnun þá er ekkert nógu gott.

Fokk fullkomnun.
Komdu frekar í #NÓGUGOTT söfnuðinn.
Þar er gott að vera.