Grannur er ekki samnefnari við að vera heilsuhraust ræktarrotta

“….svo þekkir maður fullt af fólki sem borðar sykur en er samt tággrannt.”

Þessi setning heyrðist úr viðtækinu í umræðu um sykurskattinn ógurlega sem nú sveimar yfir og allt um kring eins og koltvísýringur.

Svona skilaboð ýta undir þá ranghugmynd að við getum dæmt heilsu einhvers út frá stærð líkamans

Að vera grannur er ekki samnefnari við að vera heilsuhraust ræktarrotta.

Þó umbúðirnar séu smáar getur innvolsið verið í tómu tjóni.

Að vera feitur er heldur ekki samnefnari við að vera óheilsusamlegur haugur.

Þó skelin sé stór þá getur úthaldið og styrkurinn verið í toppstandi.

Það er ekki til ein ákveðin heilbrigð þyngd.
Það eru til heilbrigðar manneskjur.
Það eru til heilbrigðar lífsvenjur

Hreysti kemur ekki í ákveðinni stærð. Heilsa kemur ekki í ákveðnu mataræði. Hollusta lítur ekki eins út fyrir alla.

Heilsa snýst ekki um að að gúlla sykur en vera samt grannur.

Þú getur verið grannur eða þybbinn.
Með sýnilega vöðva, heflaðan sixpakk,

Eða ávalar línur og mjúkan maga.

Bólstraður rass getur í mörgum tilfellum verið heilbrigðari en horaðir þjóhnappar.

Samband líkama við þyngdaraflið hefur ekkert að segja um hvort maskínan sé heilbrigð að innan.


Heilsuhegðun er það sem skiptir máli.

  • Að borða 3-4 vel samsettar máltíðir á dag
  • Rífa í járnið 3-4x í viku
  • Stunda þolþjálfun sem kitlar pinnann þinn
  • Borða 4-7 skammta af grænmeti á dag
  • Hitta vinina
  • Stunda slökun
  • Sofa 7-9 tíma á sólarhring
  • Njóta sykurs öðru hvoru án samviskubits
  • Hafa heilbrigða þarmaflóru

Þegar þú skrollar Instagrammið og sérð heflaða og granna skrokka státa sig af kleinuhringjaáti skaltu spyrja þig hvort viðkomandi sé hamingjusamur. Sé að sofa vel. Eigi heilbrigt samband við mat. Hafi heilbrigðan hormónabúskap. Sé orkumikill yfir daginn. Eigi sterkt félagslíf. Sinni áhugamálum sínum.

Það eru ekki veitt Nóbelsverðlaun fyrir að sturta sykri niður vélindað án þess að fá aukabólstrun á rasskinnarnar.

______________________

Under Armour http://www.altis.is = afsláttarkóði ragganagli = 20% afsláttur

Speedo afsláttarkóði Hverslun.is = ragganagli20 = 20% afsláttur

#samstarf #sp