Svart-hvíta hetjan

Enn ein þurr túnfiskdósin í hádeginu, klukkan ekki orðin tvö og hungrið strax farið að læsa krumlunum í innantóman óhamingjusaman kviðinn.
“Neibb þarf að bíta í það súra og herða ólina. Megrunin skal virka í þetta skiptið.”
Klukkan þrjú og Siggi í bókhaldinu hringir brjálaður, vill reikningana helst í gær á sama tíma og dóttirin hringdi með mótþróa.
Pirringurinn, stressið og örvæntingin fer eins og rafstraumur um skrokkinn.
“Ég á skilið súkkulaði þegar ég kem heim, takk fyrir pent….Adíós allar túnfiskdósir heimsins.”

Áður en þú veist af er eldhúsgólfið eins og vígvöllur í Bagdad.

Kexpakkinn liggur örendur á gólfinu.
Doritos pokinn gjörsigraður undir eldhúsborðinu.
Kjörísboxið má muna sinn fífil fegurri.

Þú misstir kontrólið og kúlið og allt sem ekki var niðurneglt rann ofan í vélindað.
Megrunin gekk eins og smurð normalbrauðsneið úr bakaríí Suðurlands en svo kom pirringur, vont skap og epísk þreyta á þurru einhæfu mataræðinu.
Það var gleði Þórðar meðan tygging var í gangi en svo heldur betur kárnaði gamanið þegar kviðurinn baðst vægðar.

Veistu hvað er stærsti áhættuþátturinn fyrir ofátskast?

Stíf einhæf megrun, neikvæðar hugsanir um eigið útlit og svarthvíta hetjan.

Svarthvíta hetjan er hættulegasti ferðafélaginn í heilsulífinu.

 Hvernig ertu í lit? spurðu Dúkkulísurnar forðum daga.

Hver er þessi svarthvíta hetja?

Hún lætur okkur trúa að allt sé annað hvort gott eða slæmt, rétt eða rangt, allt eða ekkert.

Þú þarft að vera 100% í því sem þú tekur þér fyrir hendur, annars máttu eiga von á hæðnisbréfi frá ríkisstjórninni og getur þá allt eins sleppt verkefninu algjörlega.
Sama gildir um hollt mataræði, heimsyfirráð eða dauði er það eina sem blífar.
Annað hvort ertu í hollustunni eða með kokteilsósu út á kinn, það er ekkert grátt svæði, enginn diplómatískur millivegur.
Nokkrar rúslur á kantinum leiðir af sér ólympískar dýfingar ofan í súkkulaðirúsínu pokann þar til fer að flæða uppúr vélindanu.
Óvænt pylsa með öllu nema hráum í múgæsingu eftir sund og þá allt eins gott að smyrja nýrað með kílói í viðbót af mettuðu fitusýrum.
Hugsanir úr ranni niðurrifsins heltaka berskjaldaðan hugann. Sjálfið er sett í pappírstætara.“Þú ert ræfill og landeyða sem heldur ekki út megrun.”
“Viljalaust verkfæri súkkulaðiframleiðenda heimsins.”
“Ég verð alltaf feit(ur) af því ég get ekki verið 100% í nýjasta kúrnum úr Cosmópólítan.”

Þú verður ekkert annað en rukkari, róni eða þaðan af verra…alinn upp í Gaggó Vest.Svo er megrað eins og vindurinn niður í sultarmörk með tilheyrandi slefi á bretti í örvæntingu að brenna upp innbyrtum hitaeiningum.

Í öllum bænum losaðu þig við svarthvíta djöfulinn.
Sættu þig við að fullkomnun er vonlaust markmið og rænir þig jafnvægi í lífinu.
Spyrðu þig hvort miskunnarlaus dómharkan í eigin garð eigi rétt á sér og hvort þú myndir dæma vin þinn á sama hátt.
Taktu líka megrunarkvikindið útúr breytunni því við erum móttækilegust fyrir neikvæðum hugsunum og svarthvíta forarpyttnum þegar við erum hungruð og pirruð á einhæfni og þurrelsi í snæðingi.
Ef við sneyðum líkamann af kolvetnum og góðri fitu fær hann ekki þessa mettunartilfinningu og við erum stöðugt með innantómt frústrerað kviðarhol sem gargar á mat.
Lífeðlislegt og huglægt hungur heltekur allt okkar daglega líf og súkkulaðistykkin valhoppa liðlangan daginn í heilaberkinum.
Hættu að hanga á horriminni í veikri von að svelta fituna með refsivöndinn tilbúinn fyrir hvert misstig af brautinni. Stundaðu heldur heilbrigt og fjölbreytt mataræði með nægum hitaeiningum til að fóðra vöðvana og sættu þig við mannlegan breyskleika.
Þannig stórminnka líkurnar á ofátskasti sem aftur minnkar líkur á ljótum niðurrifshugsunum um sjálfið og allir gubbandi hamingjusamir í lífsstílnum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s