Réttur dagsins: Þolinmæði

“Þolinmæði” er orð dagsins. Þegar lagt er af stað upp í ferðalag með líkama sinn er nefnilega mikilvægt að tileinka sér þessa höfuðdyggð því hún mun koma þér á áfangastað.

Á byrjun árs gubbast skilaboðin af síðum glanstímarita og netmiðla um töfrapillur og skyndilausnir sem fela í sér að árangur gerist á örbylgjuhraða.
Það er troðið inn í hausinn á sárasaklausum lýðnum að þú getir misst 5 kg á viku, eða bætt á þig 10 kg af kjöti á örfáum mánuðum.
Svona bull hefur því miður gert raunhæfar væntingar til árangurs jafn sjaldséðar og styrkingu krónunnar.

Ef það hljómar of gott til að vera satt, geturðu hengt þig í hæsta gálga að það er örugglega raunin.
Það er ekkert raunhæft né eftirsóknarvert við að missa meira en hálft kiló á viku, og þegar það gerist eru stórar líkur að í þyngdartapinu sé ekki einungis fita.
Þar eru nefnilega líka vöðvarnir sem við eyddum blóði svita og tárum í að byggja upp, sem og vökvi úr vöðvum og innyflum.

Staðreyndin er sú að líkaminn vill ekki vinna hratt, rófubeinið og skeggvöxtur karlmanna eru líklega besta sönnun þess.
Ef við þröngvum honum í að vinna á hraða sem hann kærir sig ekki um þá máttu vera viss um að hann hefnir hann sín seinna meir.
Hefndaraðgerðirnar felast meðal annars í að brjóta niður vöðva til orkumyndunar sem lækkar grunnbrennsluhraðann og gerir líkamsstarfssemi óskilvirka fyrir næstu tilraunir til fitutaps.
Uppskeran verður hinn víðfrægi og óþolandi jó-jó vítahringur af þyngdartapi og þyngdaraukningu – missa tíu kiló en bæta á sig fimmtán – og hringspólað í sömu forugu hjólförunum ár eftir ár með handónýtt brennslukerfi.


Þú þarft að vinna með líkamanum, ekki á móti honum. Þegar þú ert í samvinnu við skrokkinn þá svarar hann. Þegar þú þvingar líkamann í að vinna hratt þá bregst hann við.

Því lengur sem við gerum rétta hluti fyrir líkamann því samvinnuþýðari verður hann.

Stærsta orsök uppgjafar eru nefnilega skýjaborgir væntinga um að sjá árangur helst á fyrstu vikunni.
Hafa verður í huga að aukakílóin komu ekki á skrokkinn á 12 vikum og tekur því ekki ársfjórðung að ná þeim burtu. Breytingar eru samt að eiga sér stað í líkamanum þó við sjáum þær ekki frá degi til dags, eða frá viku til viku.

Langtímaverkefni er hið nýja svart og við eigum að njóta ferðalagsins í átt að betri heilsu og hraustari skrokki með þolinmæði í vasanum og bjartsýni í hjartanu.

Markmiðið á að vera að vinna með líkamanum en misþyrmir honum ekki eins og raunin er í mörgum skyndilausnum samtímans og fela í sér dramatískar aðgerðir til að sjá árangur helst í gær.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s