Rútínurask

Ég fór í frí og datt út úr rútínunni og átti erfitt með að koma mér aftur í gírinn

Ef Naglinn ætti tíkall fyrir hverja slíka frásögn af falli af beinu brautinni mætti mæla þykkt bankabókarinnar í hekturum.

Það er staðreynd að rútínurask er einn stærsti áhættuþáttur í að hendast útaf brautinni og oft þarf dráttarvél til að komast aftur inn á hana.

Hvernig væri þá að fækka einni afsökuninni í bókinni og halda tempói í æfingum og mataræði þó þú yfirgefir heimahagana?
Regluleg ástundun er töfrapillan að árangri.Þess vegna er merkilegt að hjá þorra mannkyns nær það út fyrir mörk fáránleikans að rækta líkamann þegar í fríi. Af hverju þá ekki að sleppa annarri líkamlegri hirðu eins og að þvo af sér skítinni eða bregða greiðu í lýjurnar á hausnum?

Hvort sem leiðin liggur útfyrir landsteinana eða bæjarmörkin er fólk með skema í hausnum um að nú eigi að vera góður við sig – ég er í fríi.

Ég ætla sko EKKI að fara að mæta í ræktina og nú skal aldeilis éta allt gúrmeti undir sólinni.

En er það að vera góður við sig að eina líkamlega áreynslan er þramm á verslunargötum og efri skrokkurinn þjálfaður með burði á H&M pokum?

Er það að vera góður við sig að kýla vömbina dag eftir dag svo augun standa útúr höfðinu og kjötsvitataumar leka niður bakið?

Það þarf ekki að þýða skipulagningu á G8 fundi að ætla að hreyfa sig í fríinu.

Þú þarft heldur ekki að eyða lunganu úr deginum í að djöflast, tuttugu mínútna hringþjálfun á hárri ákefð blífar súper og eftirbruninn heldur áfram allan daginn meðan þú mundar Canon-inn á markverðar minjar.

Vertu í strigaskónum í vélinni á leiðinni til að spara pláss í veskunni og æfingafatnaður eru þynnildistutlur sem taka ekkert pláss.
Skokkhringur er “sightseeing” í leiðinni og alls staðar má finna almenningsgarða til ástundunar djöfulgangs í formi hringþjálfunar –  froskahopp, fjallganga, hopp á bekk, armbeygjur má gera án nokkurs tækjabúnaðar.
Mörg hótel hafa líkamsræktaraðstöðu innan veggja eða það má gúggla næsta musteri líkamans og sjoppa vikupassa.

Að kynnast ræktarmenningu annarra landa er eitt helsta áhugaefni Naglans á framandi slóðum.
Til dæmis kom það á daginn nýverið að eldri borgarar Katalóníuhéraðs eru sérdeilis ekki vanir smátúttum með strappa rífandi í stálið. Sápur fengu harða samkeppni við glápið.

Að sama skapi urðu hinir innfæddu í Tyrklandi kindarlegir þegar rymjur og grettur heyrðust úr ljóshærða kvendinu.

Á ferðalögum er það mannlífsstúdía mikil að fylgjast með fóðrun túrhesta.

Að finna æti sem nálgast að hafa eitthvað hollustugildi og er á sama tíma girnilegt og aðlaðandi á túristaráfi um nýlendur er eins og að leita að títuprjóni í nálapúða.

Sykursnúðar, smjörugar vöfflur, hófakjötsstrimlar, sveittir borgarar, majónessalöt, skjannahvítar næringarlausar brauðsneiðar og dísætt ropvatn er það sem rennur niður vélindað á hverju horni.

Þú þarft ekki að fylla öll vélindu af mettuðum fitusýrum í tólf tíma á dag bara af því þú fórst í flugvél. Veldu eina máltíð dagsins til að hylla sukkguðinn en troddu íturvöxnum ávöxtum og öðru dásamlegu hollmeti í trýnið þess á milli.

En það er hinsvegar nauðsynlegt að kitla pinnann í útlandinu og þú eignast aldeilis inneign fyrir sukkinu með hamagangi á Hóli.

Þetta er ekki lífsstíll ef þú getur eingöngu stundað heilsuna í einu póstnúmeri heimsins.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s