7 góð ráð fyrir jólahlaðborðin

 

 

Fórstu á jólahlaðborð um helgina?
Fórstu með himinskautum í vambarkýlingu.
Vaknaðirðu þjakaður og þrekaður daginn eftir.
Í læstri hliðarlegu langt fram eftir degi.

Flestir borða sig til óbóta á hlaðborðum til að fá það sem þeim ber fyrir aurinn.
Það er jú búið að punga mörgum þúsurum úr buddunni.

Koma heim eftir matarofgnótt og tæta sig úr þröngum spjörum.
Hlammast í sófann og hneppt frá brók.
Hefði gert það á veitingastaðnum ef það væri ekki félagslega óviðeigandi.

Sportar joggingbrók fram yfir miðja viku.
Enginn buxnastrengur má þrengja að bjúgaðri vömbinni

Sálin er særð. Lítill í þér.
Samviskubit. Sektarkennd. Eftirsjá.

Brjóstsviði. Bakflæði. Meltingartruflanir.
Hjartsláttartruflanir. Hnakkasviti.

Hér eru nokkur góð ráð til að labba passlega saddur frá allsnægtarborði.
Sáttur við sjálfan þig.

➡️Byrjaðu á að velja borð að minnsta kosti 2-3 metra frá sjálfum matnum. Sittu síðan með bakið í hlaðborðið. Rannsóknir sýna að þeir sem sitja nálægt og með glyrnurnar á rjómasósurnar fara tvisvar sinnum fleiri ferðir.

➡️Áður en þú tekur þér disk í hönd. Labbaðu þá hring í kringum borðið. Skannaðu fyrst hvað lítur vel út og ákveddu í huganum hvað þú ætlar að fá þér.

➡️Taktu síðan disk og raðaðu fallega á hann því sem komst í gegnum niðurskurð sælkerans innra með þér.
Biddu um salatdisk ef einungis matardiskar á stærð við gervihnött eru í boði.

➡️Vertu kaloríusnobbaður og fáðu þér bara það sem þig virkilega, virkilega langar í. Það sem passar vel saman í bragði og kryddum. Hugsaðu um gæðin í matnum fram yfir magnið. Dúndraðu miklu af grænmeti á diskinn til að fylla þig betur af kaloríusnauðari næringarríkari kostum.

➡️Ekki stinga upp í þig atómi af mat fyrr en þú ert sestur niður, með servéttu í kjöltu og hnífapör í hægri og vinstri. Settu jafnvel gaffalinn í þá hönd sem þú ert ekki vanur að borða með.

➡️Reyndu að borða hverja örðu með hnífapörum. Það hægir á þér í máltíðinni og þú nýtur matarins betur. Taktu núvitundina á hæsta stig. Skerðu bita. Stingdu upp í þig. Tyggðu 10-15 sinnum. Ekki byrja að skera næsta kvikindi fyrr en munnurinn er tómur. Drekktu vatn á milli bita.

➡️Einsettu þér að fara aðeins eina ferð í hvern rétt. Eina ferð í forrétt, aðalrétt og ef pláss er fyrir desann. Ef þú ákveður að fara aðra ferð gefðu þér 5-10 mínútur til að leyfa seddunni að losast út í blóðstreymið og ákvarða hvort þú sért ennþá í stuði.

➡️ Góð minning um máltíðina felst í að líða vel á sál og líkama eftir átið. Það líður engum vel þegar maginn er eins og uppblásinn gasblaðra á sautjánda júní og Þú þarft ekki að borða þar til augun standa á stilkum til að fá fyrir aurinn. Góð minning er meira virði en drekkhlaðinn kviður i marga daga af kalkún og svínahrygg.