365 blaðsíður á einum degi – eða ein blaðsíða á dag í heilt ár?

Flestir vilja líkamlegan árangur á örbylgjuhraða.
Að skrokkurinn taki stökkbreytingu á nanósekúndum.
 
Um leið og gullið æfingaplan er komið í hönd á kjötið að bunkast á grindina og lýsið að leka stríðum straumum af botnstykkinu.
 
Ef dramatískar breytingar eru ekki sjáanlegar eftir örfáar vikur hertekur frústrasjón sinnið.
Vonleysi. Pirringur. Leiðindi.
 
Uppgjafarhermaðurinn marsérar inn í heilann.
Sannfærir þig að puðið sé ekki þess virði.
Of mikið vesen.
Of mikið álag á viljastyrkinn.
 
Hvítir hnúar
Gnístran tanna
 
En málið er að þú stjórnar ekki útkomunni.
Þú stjórnar ekki hvernig líkaminn bregst við.
 
Þú stjórnar bara hegðuninni.
 
Ef þú værir beðinn um að skrifa 365 blaðsíðna bók á einum mánuði myndirðu senda viðkomandi í læknisskoðun.
 
“Ertu ruglaður í skallanum??? Það er óraunhæft.”
 
En ef þú ættir að skrifa eina blaðsíðu á dag í heilt ár væri það yfirstíganlegt verkefni.
 
Ein blaðsíða er örþunn sneið af tré.
En þær safnast saman í marga kafla.
 
Og áður en þú veist af áttu heila skræðu útkrotaða af réttum ákvörðunum.
 
Það sem ákvarðar árangur er að gera rétta hluti aftur og aftur og aftur.
 
Dag eftir dag. Viku eftir viku. Ár eftir ár.
 
Skrifaðu rétta hluti á þína blaðsíðu í dag.
Líka á morgun. Og hinn. Í næstu viku. Í næsta mánuði.