Kalkúnn og með’ðí – jól og áramót í núvitund

Fyrir marga eru jólin ekki bara hátíð gleði og kærleiks.
Gjafir og græjur. Skraut og sörur. Kökur og kransar

Það er líka tími kvíða. Allskonar kvíða.

Fyrir jólin heltekur angistin að vera ekki “búinn að öllu”.
Áhyggjur af ókeyptum gjöfum. Óeldaðri sósu. Óþrifnum skápum.

En eftir því sem nær dregur byrjar matarkvíðinn hjá mörgum að taka við keflinu.

Kvíðinn yfir að borða of mikið þessi jólin eins og siðustu ár.
Að fylla vélindað af mat sem fer ekki vel í mallakútinn. Salt, sykur, smjör og hveiti þar til vömbin biðst vægðar.

Hneppa frá brók. Hnakkasviti niður bakið. Hjartað eins og túrbína.

Matur sem þú allajafna reynir að stýra þér í kringum fær núna frjálsan aðgang að túlanum.
Og þá kemur hræðslan við að missa tökin. Að geta ekki stjórnað hönd að munni.

En ef þú nýtur jólakræsinganna í núvitund þessi jólin þá upplifirðu frelsi frá þessari hræðslu.
Þessari innri styrjöld samviskubits og togstreitu sem herjar á heilann.

“Jú fáðu þér Makkintossj… það eru jú jólin.”
“Ohh hefði ekki átt að borða svona marga brúna mola.”
“Ég er gráðugt svín”

Hér eru nokkur góð ráð til að nærast í núvitund þessi jólin.

* Fáðu þér einu sinni diskinn og veldu allt sem þér þykir gott og girnilegt. Þá geturðu setið í rólegheitum og notið matarins án þess að vera eins og öryggismyndavél hvort Júlli frændi sé að klára Waldorf salatið.

* Þú ert búinn að eyða mörgum klukkutímum í að versla inn. Heilum degi að sjóða, steikja, hræra, baka. Það er sorglegt að máltíðin sjálf taki síðan bara 10 mínútur. Borðaðu hægt og rólega. Leggðu frá þér hnífapörin milli bita. Veltu fyrir þér áferðinni og hvernig bragðlaukarnir dansa tangó við matinn.

* Hugsaðu um matarlystina þína eins og bankareikning. Hvað ætlarðu að eyða miklu í forrétt. Hversu miklu skal spandera í aðalréttinn. Ætlarðu að brjóta sparibaukinn fyrir desa? Skipuleggðu fjármálin fyrirfram til að koma í veg fyrir meðvitundarlaust ofát.

* Minglaðu við Lóu frænku og Stulla systurson fjarri kræsingunum. Því það sem er ‘úr sjónlínu er úr sálinni’. Ef þú hímir eins og unglingur í sjoppu í kringum stöffing og frómas þá ertu líklegri til að borða meira en þú ætlaðir.

* Vertu kaloríusnobbaður. Eyddu kaloríunum þínum í gæðastöff sem þér þykir gúrmeti. Ekki þriðja flokks sælgæti. Skraufþurrt sætabrauð eða búðarkeyptar smákökur.
Hættu að borða ef maturinn er undir væntingum.

* Meðvitundarlaust jórtur úr skálum af borðum leiðir til líkamlegrar seddu en sálin er svekkt því þú manst bara eftir fyrsta molanum en óminnishegrinn tók öll völd á þeim þriðja upp í þrjátíu. Þú þarft ekki að stinga upp í þig bara af því það er skál á borðinu

* Ef þú borðar bara mat sem er gordjöss og gómsætur, hægt og rólega og átt rómantískt móment með matnum upplifirðu að þú þarft miklu minna magn.

Með því að nærast í núvitund þessi upplifirðu frelsi. Frá togstreitu og kvíða. Frá hræðslu og hjálparleysi.

Og kemur út hinum megin við jólin uppfullur af sjálfstrausti eftir að hafa staðið með sjálfum þér.
Tilbúinn í allar áskoranir nýja ársins.

Komdu bara með þær… “ég massa þetta”.

Gleðileg núvitundarjól !