Janúar
Jólum og áramótum 2013-2014 eytt í London.
Naglinn var beðin um að halda fyrirlestur á konukvöldi í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Fyrirlesturinn fjallaði um hvernig við náum stjórn á hugsunum okkar til að stuðla að betri heilsuhegðun.
Einnig hélt Naglinn fyrirlestur í Budz Boot Camp í Köben um tengsl hugsana og heilsu og nýtileg hugræn verkfæri til að tækla hryðjuverkahugsanir sem hrinda okkur reglulega af brautinni.
Febrúar
Í febrúar lagði Naglinn enn einu sinni land undir fót og hélt til London á matreiðslunámskeið hjá drottningunni af ProteinPow.
Samningur um bókaútgáfu á Heilsubók Röggu Nagla undirritaður milli Naglans og Sögur útgáfu.
Ferðalag til Osló og auðvitað tekið á því í Elixia Majorstuen.
Mars
Fyrirlestur í Metabolic Reykjanesbæ um tengsl hegðunar og hugsana og hvernig við tæklum þessar hugsanir til að stuðla að betri heilsu.
Naglinn var beðin um að vera gestur í sjónvarpssal á sjónvarpssstöðinni sálugu Mikligarður þar sem umfjöllunarefnið voru megrunarkúrar, líkamsímynd og öfgakenndar tálgunaraðferðir.
Apríl
Fyrsta matreiðslunámskeið Naglans sett upp í Köben með frábærum hópi af lærdómsfúsum heilsugosum.
Frábær páskaferð til Kanada í brúðkaup í Hamilton Ontario hjá þjálfara Naglans til sjö ára.
Síðan tók við rómantisk vika hjá hjónunum í Stóra Eplinu, nánar tiltekið í Harlem hverfinu þar sem hjónakornin leigðu íbúð í gegnum Air Bn’B því heilsumelurinn og átvaglið þarf að hafa sitt eldhús.
Í NYC var að sjálfsögðu tekið á því og rymjandi hvít kona í lyftingasalnum vakti óskipta athygli innfæddra og ekki leið á löngu þar til Naglinn hafði vingast við nokkrar ræktarrottur.
Maí
Naglinn skellti sér á námskeið í lyftingatækni í réttstöðulyftu, bekkpressu og hnébeygju. Leiðbeinandinn hafði sérstaklega orð á hversu djúpt Naglinn fór í hnébeygju og sagði við hópinn: “Þetta er dýptin sem þið eigið að stefna að.” Og hananú!
Júní
Enn ein ferðin til Osló og tekið á því í Elixia samkvæmt venju.
Heilsumelir liggja ekki aðgerðarlausir og flatmaga í sólinni í Frognerparken í Osló, heldur nýta tækifærið og teygja á stirðum skönkum og auka hreyfanleika og liðleika.
Fyrstu matreiðslunámskeið Naglans sett upp á Íslandi í samstarfi við snillingana hjá Now á Íslandi, Nettó búðirnar og Fitness Sport. Það seldist upp á öll þrjú námskeiðin á mettíma. Miðarnir á þriðja námskeiðið fóru á sléttum átta mínútum, og einhver sagði að það væri erfiðara að nálgast miða í gúmmulaðisgerðina en á Justin Timberlake tónleikana. Hafðu það góði.
Í félagslífinu var farið á stórskemmtilega tónleikahátíð Secret Solstice í Laugardal og Naglinn getur vart beðið eftir að endurtaka leikinn á hátíðinni á næsta ári.
Júlí
Júlí hófst á Rolling Stones tónleikum á Hróarskelduhátíðinni. Þá er hægt að strika útaf fötulistanum að hafa barið augum öldungana í Rúllandi Steinum.
Og enn hélt tónleikagleðin áfram í London þar sem Naglinn fór á enn eina tónleikahátíð og barði augum Outkast, Bruno Mars og Ellie Goulding.
Myndataka fyrir heilsubók Röggu Nagla sem kemur út í byrjun janúar.
Hitabylgja var í Skandinavíu í allt sumar og ófáar ferðir farnar á strendur Kaupmannahafnar með nesti og nýja sandala.
Ágúst
Enn hélt hitabylgjan áfram og sólað sig þar til húðin varð að gömlum leðursóla.
Jótland heimsótt til að fara í brúðkaup og að sjálfsögðu tekið á því í Álaborg city. Þú tekur betur á því þegar nafnið þitt stendur á Under Armour bolnum þínum. Under Armour frá hinum frábæru styrktaraðilum Naglans í Altis Ísland.
September
Gleðin hélt áfram með tveimur matreiðslunámskeiðum Naglans á Íslandi, og seldist upp á þau bæði á örfáum klukkutímum.
Á Heilsudögum Nettó í september veitti Naglinn ráðleggingar um hollustuvörur fyrir heilsusamlegan lífsstíl, og gaf gestum og gangandi smakk af heilsugúmmulaði eins og prótínpizzu, hollustubrownies, hnetusmjörsköku og horaðri súkkulaðisósu.
Naglanum hlotnaðist sá heiður að vera gestur í sjónvarpssal á degi Rauða nefsins.
Október
Afmæli Naglans fagnað í Osló.
Hápunktur ársins var klárlega októbermánuður þegar Nýtt líf vildi ekki einungis að smettið á gömlu prýddi forsíðu tölublaðsins, en einnig að vilja birta nöldrið um sálfræðilega vinkilinn á heilsuna. Ekki hægt að hugsa sér betri afmælisgjöf og meiri heiður.
Nóvember
Þriðja lota af matreiðslunámskeiðum Naglans í Lækjarskóla.
Ný sálfræðistofa Naglans opnuð í Köben og sífellt fleiri skjólstæðingar bætast í hóp þeirra fjölmörgu sem Naglinn aðstoðar með hugrænni atferlismeðferð við ofátsvandamálum, líkamsímynd, sjálfsmynd, kvíða, þunglyndi, streitu.
Aðventuferð til London þar sem Naglinn fór á fitness mót til að hvetja góðan vin sinn frá Suður Afríku sem keppti í íþróttafitness
Desember
Jólum fagnað í miklum rólegheitum í Köbenhavn.
Heilsubók Röggu Nagla fór í prentun
Sannarlega viðburðarríkt ár á enda og Naglinn getur vart beðið eftir hvað 2015 ber í skauti sér.