Þeir sem æfa og eru annað hvort í fitutapi eða í uppbyggingu, eru oft ekki með væntingar í takt við raunveruleikann.
Margir leggja upp með að þeir munu missa heilu bílfarmana af mör eins og í Biggest Loser þáttunum.
Eða að þeir munu byggja upp slíkt magn af gæðakjöti að sjálf Eikin myndi skammast sín. Margar konur vilja alls ekki prógramm sem gerir þær rosalega massaðar.
Naglanum þykir fyrir því að skvetta þessari vatnsgusu framan í fólk, en hvorki karlar og alls ekki konur, geta bætt á sig fleiri kílóum af vöðvamassa á einu prógrammi. Það er líffræðilega ekki hægt, nema að sprauta í sig þar til gerðum efnum.
Lýsið lekur heldur ekki í stríðum straumum frá „day one“ á nýju prógrammi og mataræði. Það getur tekið líkamann nokkrar vikur að komast í fitubrennslugírinn. Hann streitist á móti fram í rauðan dauðann, og því minna sem þú borðar því þrjóskari verður hann.
Ef þetta væri auðvelt þá myndu allir spranga um með Baywatch skrokk. Ef þú ert ekki sátt(ur) nema að vera 5 kg léttari á einni viku eða að komast í næstu stærð fyrir neðan í gallabuxum um næstu helgi, þá þýðir það ekki að þú sért ekki að ná árangri.
Á ákveðnum tímapunkti þurfum við setja okkur raunhæf markmið og hætta að vona að það sem við erum að gera sé eitthvað kraftaverk sem muni vippa rassinum á okkur í form á einni nóttu.
Breytingar eru að eiga sér stað í líkamanum þó við sjáum þær ekki frá degi til dags, jafnvel frá viku til viku. Skilaboðin eru að væntingarnar verða að vera raunhæfar, það er ekki hægt að missa meira en ½ – 1 kg á viku nema að missa vöðvamassa líka, og þá hægist á allri brennslu og líkaminn verður hneigðari til að geyma fitu. Þess vegna er ekki gott að grípa til einhverra dramatískra aðgerða í örvæntingu yfir að árangurinn sé ekki sá sem lagt var upp með í upphafi. Þess vegna er gott að endurskoða markmiðin sín reglulega, og þó árangurinn sé ekki alveg sá sem vonast var til í upphafi er það allt í lagi svo lengi sem við erum að stefna í rétta átt, þó það séu hænuskref.