Súkkulaði appelsínu triffli

Súkkulaði appelsínu triffli varð það heillin og nú er tímavél heitasta óskin til að endurtaka þetta unaðsmóment sem Naglinn átti með skeiðina að vopni.

 

PhotoGrid_1397656347262

Súkkulaði appelsínu triffli

Grautur:

40g haframjöl
1-2 tsk NOW Psyllium Husk
50g rifið blómkál (gerir sjúklega mikið magn fyrir átsvín, treystið mér þið finnið ekkert blómkálsbragð)
klípa salt
Rifinn appelsínubörkur + kreista af sínunni
vatn (magn eftir þykktarsmekk)

Kokka graut á hlóðum og leyfa að kólna meðan vanillukrem og appelsínusósa er mallað saman.

Appelsínusúkkulaðisósa

Ósætað kakó (t.d Hersheys)
möndlumjólk
NOW erythriol/Sukrin flormelis/Sukrin gold
Rifinn appelsínubörkur + kreista af sínunni

Hræra öllu saman þar til kakóið gefst upp fyrir vökvanum.

Vanillukrem

75 g kotasæla
75 g skyr/kvark/grísk jógúrt (1%)
1 msk Sukrin/Stevia/NOW erythriol
NOW French vanilla dropar

Hræra kreminu saman með töfrasprota þar til sælan hefur losnað við unglingabólurnar.

Raða í lögum í tvö glös, graut, sneiddum banana, appelsínusúkkulaðisósu og vanillukremi.

Geyma gleðina í ísskáp yfir nótt.

Fátt dásamlegra en að geta rúlla sér útúr bælinu og graðga beint í ginið þegar hungrið ætlar holdið lifandi að éta.