Heyrði ég rétt? Skinhoraðar brownies? Úr baunum?? Og ekki nema 45 kcal í bita (ath! ekki allri kökunni).
Stöðvið tímann gott fólk, því þessi unaður mun senda ykkur beinustu leið með DHl í útópíu af átgleði.
Svartar baunir sem staðgengill hveitis í hollustubakkelsi er mesta snilld sem mannkynið hefur notið góðs af síðan handlóðið var fundið upp.
Hættu því sem þú ert að gera og skelltu í eina köku. Þú munt þakka fyrir að eiga þennan björgunarkút þegar púkinn bankar á dyrnar um helgina.
Svartbaunaprótínbrownies
c.a 12 bitar
1.5 skófla súkkulaðimysuprótínduft (hvaða tegund blífar, Naglinn notaði Myprotein)
1 msk NOW erythritol (Fjarðarkaup, Nettó, Krónan, Lifandi markaður)
klípa salt
1/2 tsk lyftiduft
1 msk ósætað kakó (Hershey’s )
2 tsk instant kaffi
0.5 dl möndlumjólk
1 niðursuðudós (230g) svartar baunir
0.75 dl graskersmauk
2stk eggjahvítur (60g)
Aðferð:
1. mauka allt saman með töfrasprota og hella í 20×20 cm form klætt með bökunarpappír
2. baka í ofni við 175°C í 30 mín eða þar til tannstöngull kemur út hreinn
3. Leyfa henni að kólna áður en tönnunum er sökkt í þennan unað
Athugið að það er stórhættulegt að eiga þetta í ísskápnum því þú missir alla stjórn á handleggnum sem teygir sig ósjálfrátt í bita í hvert skipti sem hurðin er opnuð.
Toppa með horaðri súkkulaðisósu og njóta með jarðarberi og horuðum þeyttum “rjóma” úr undanrennu og NOW french vanilla dropum.