Höfuðlausn

Það er fyrsta vika janúarmánaðar og venju samkvæmt ríða stórkostlegar yfirlýsingar húsum um gervalla heimsbyggðina….. já eða Feisbúkk og Twitter…..

Og hvert er innihald yfirlýsinganna?
Að missa mör, að kjöta skrokk, að hlaupa, hraðar, að lyfta þyngra, hætta að kýla kvið, að komast í þrengri föt …að að að….
Það vantar ekki stóru orðin sem básúnað er í eyru náungans.
2014 skal verða árið sem þú hakar við markmiðin og hananú….

Desember liggur í maganum og nagar samviskuna.
Til að þagga niður í öskrandi móralnum er borist með fjöldanum í átt að heilsumusterum landsins.
Árskortin gubbast útúr afgreiðslum líkamsræktarstöðva eins og ylvolgar lummur með sultu og rjóma.

En hversu margir ná í raun í markið stóra?
Blessuð tölfræðin segir okkur að sjötíu til áttatíu prósent af þeim sem byrja að þramma heilsubrautina janúar heltast úr lestinni eftir fyrstu tvo mánuðina af þeim tólf sem pungað var út fyrir í árskortakaupum.

Af hverju er ekki nema brotabrot sem heldur áfram á braut heilsunnar og gerir heilbrigðan lífsstíl hluta af sjálfinu.?

Of margir ætla að sigra heiminn á fyrstu vikum ársins án þess að hafa kortlagt leiðina að markmiðinu? Útkoman hangir langt uppi í Hallgrímskirkjuturni en þegar kemur að leiðinni þangað er vindurinn aldeilis úr blöðrunni.

Mergurinn málsins er sá að við ráðum ekki yfir útkomunni en við stjórnum hegðun okkar og hugsun og hún ákvarðar hvor áramótaheitið verði bara janúarheit.

Þú getur lesið alla pistlana sem úsa af netinu um hvað þú eigir að gera til að komast í form en ef hausinn er ekki rétt skrúfaður á hálsinn fyrir verkefnið máttu gera ráð fyrir að verða stoltur styrktaraðili en ekki neytandi ræktarmustera strax á fyrsta ársfjórðungi.

Byrjum því á að breyta þankagangnum.
Ef hann er neikvæðari en hagvöxturinn geturðu garanterað að stimpla þig úr heilsusamlegu líferni í kringum Valentínusardaginn ásamt hinum sjötíu prósentunum.

A year from now you'll wish..

Byrjaðu á að spyrja sjálfa(n) þig hvað liggur að baki markmiðunum.
Til hvers er ég að vesenast í þessu? Er ég fórnarlamb meingallaðra útlitskrafna samtímans?
Borða ég hollt með sorg og sút til að beygja mig undir félagsleg viðmið um líkamleg form?
Mun heimsfriðurinn velta á því hvort ég er í gallabuxum númer 32 eða 34?
Eða er ég að brölta þetta til að bæta heilsuna og bæta sjálfa(n) mig?
Hreyfi ég mig af því það er gott og skemmtilegt og þá líður mér vel?

Hreyfing og hollt mataræði á að vera eitthvað sem þú vilt gera af því þér líður þér vel af hreinni fæðu og að sigra sjálfa(n) þig á æfingum er best í heimi.

Settu mynd í núðluna um sjálfa(n) þig í bullandi formi að rífa upp lóð, hlaupa eins og vindurinn, klífa fjöll eða taka armbeygjur á annarri… hvað sem kitlar pinnann þinn.

Ekki hreyfa þig af hreinni skyldurækni við samviskuna eða sem refsingu fyrir ofeldi jólanna, páskanna, laugardagsins eða annarrar kaloríuveislu.
Finndu þér hreyfingu sem þér þykir skemmtileg.
Ef það þarf að draga þig með töngum inn í líkamsræktarstöð, slepptu því.
Ef þú færð hlaupabóluna við tilhugsunina um að hlaupa, slepptu því.
Það er ógrynni af allskonar hamagangi í boði út um allar koppagrundir… leggstu í rannsóknir á framboðinu og prófaðu þig áfram.

Verum meðvituð um að við erum ekki maskínur sem má fóðra á einhæfum, þurrum og leiðinlegum mat.
Ef þér finnst túnfiskur jafn spennandi og kattamatur, borðaðu eitthvað annað.
Það mun leiða þig beinustu leið í faðm uppgjafarguðsins að troða í trýnið einhverju sem þér finnst vont og óspennandi.
Skoðaðu uppskriftavefi og safnaðu í sparigrísinn hollum uppskriftum og sniðugum kombinasjónum. Oftar en ekki má fiffa og snurfusa með að býtta út kaloríuhlöðnu innihaldi fyrir hollari kosti.

Í öllum bænum, ekki hugsa um sykur, pizzu, hamborgara eða annan sósaðan mat sem afkvæmi Kölska sem beri að forðast.
Það er ekkert bannað í lífsstílnum nema samviskubit!
Fáðu þér gúmmulaði og gómsæti af og til, hvort sem það er á skipulögðum “nammidögum” eða lítilræði hér og þar yfir vikuna.
Það heldur sinninu glöðu og uppáþrengjandi hugsunum um sveittmetið í skefjum.

 

Healthy habits

Það er nauðsynlegt að vera meðvituð um eigin veikleika í ákveðnum aðstæðum.
Stundum nær sykurpúkinn að fella okkur af beinu brautinni og þá stöndum við bara upp aftur.
Í stað þess að grípa í refsivöndinn og blóðga bakið og henda handklæðinu í hringinn, hysjarðu þig í brók og heldur áfram á morgun.
Það er dásemdin við heilsusamlegan lífsstíl… við eigum allt lífið framundan í þessum bransa.

Ekki verða fórnarlamb snarvangefinna væntinga um árangurinn.
Ef þú reiðir fram greiðslukortið í afgreiðslu sportstöðvar í þeirri trú að missa 2 kíló eða bæta plötum á stöngina í hverri einustu viku, ertu á villigötum. Það er bara ekki að fara að gerast… só sorry mæ frend.
Fitutap, vöðvavöxtur, styrkaukning und so weiter eru EKKI línuleg ferli. Aldrei!! Það er eins og íslensk veðrátta með hæðir og lægðir og það kallast heilbrigt og eðlilegt … ekki að allt sé unnið fyrir gíg og réttlætir að þú skellir í lás. Lok, lok og læs og allt í stáli og aftur í sófann með kókið.
Síðast en ekki síst… ekki ofhugsa þar til sýður uppúr núðlunni.
Ekki fá mataræði og hreyfingu algjörlega á heilann.
Hvað á ég að borða á morgun, hvenær, hvar, hvernig?
Hvenær á ég að hafa nammidag? Hvað ef mér er boðið í mat?
Hvenær á ég að æfa? Hvernig? Hvar? Með hverjum?
Hugsarðu allan daginn um hvernig, hvenær og með hvaða tannkremi þú ætlar að tannbursta þig á morgun? Eða hvaða sjampó þú munt nota í sturtunni í kvöld?
Þeir sem hafa breytt um lífsstíl leyfa heilsusamlegu líferni að flæða í bakgrunninum eins og ómþýðum djass, meðan það sinnir öðrum þáttum lífsins.
Leyfðu mataræði og hreyfingu að verða jafn eðlilegan þátt af lífinu og tannburstun og hárþvott.