Naglinn fær oft spurninguna: Ertu á X mataræðinu, eða Y kúrnum? Og svo eru nefndar allskyns skammstafanir, upphrópanir og útlenskar nafngiftir.
Naglinn borðar ekki samkvæmt fyrirfram ákveðnum fyrirmælum frá sjálfskipuðum gúrúum úti í heimi.
Fornmannafræði, Hollívúddstjörnur, duftframleiðendur eða kjúklingabændur ákvarða ekki snæðinga Naglans.
Naglinn fylgir ekki mataræði sem er áætlað útfrá háralit, blóðflögum eða skóstærð.
Naglinn borðar kolvetni og meira að segja fullt af þeim. Bæði einföld og flókin, tímasett rétt yfir daginn.
Naglinn borðar líka fitu, fullt af fitu… góðri fitu, já og stundum mettaða fitu líka.
Naglinn borðar jafn mikið alla daga vikunnar.
Naglinn borðar í samræmi við sín markmið hverju sinni, hvort sem það er uppbygging, viðhald eða fitutap.
Naglinn er ekki með risastóra nammidaga þar sem allt “bannað” aðra daga vikunnar er sporðrennt frá sólarupprás til sólarlags.
Engin matvæli eru bönnuð, ekkert flokkað sem afkvæmi Satans, ekkert er á hryðjuverkalista Sameinuðu Þjóðanna.
Mataræði er ekki ein stærð hentar ekki öllum.
Lærðu á þinn líkama og hvernig hann bregst við.
Mataræði er ekki eingöngu líkamlegt, heldur að stóru leyti sálrænt. Við erum ekki bragðaukalaus vélmenni, heldur manneskjur með þarfir og langanir.
Tileinkaðu þér mataræði sem eflir skrokkinn þinn, bætir þína heilsu, færir þig nær þínum markmiðum og friðar hausinn þinn.
Mataræðið þitt þarf ekki að koma upp í leitarstreng á Google, eða innbundið í skræðu úr Mál og menningu.
Mataræðið þitt þarf bara að passa þér.