Piparköku-kaffibollakaka

Það er ekki kjaftur í ræktinni þessa dagana. Það er greinilega útbreiddur misskilningur að skrokkurinn fari í jólafrí. Nú þegar jólaboðin hellast yfir lýðinn með svignandi borðum af kræsingum er nauðsynlegra en nokkru sinni á árinu að hreyfa sig.

Með því að svitna og púla losum við út úrgangsefni og bjúg sem safnast upp þegar mjög saltaður matur er borðaður og við höfum meiri orku. Þá líður okkur ekki eins slenuðum eins og vill oft verða þegar vömbin er kýld út fyrir velsæmismörk.

Það er líka mikilvægt að halda sig á mottunni og gúlla hollustusnæðinga í hinum máltíðum dagsins og vera klár með gómsæta hollustu.  Naglinn fjárfestir um jólin í tilbúnum piparkökukryddblöndu frá Dr. Oetker… så enkelt og nemt, og NEI ekki til piparkökubaksturs, þessi húsmóðir skellir ekki í eina einustu sort fyrir jólin. Posarnir eru nefnilega guðgsjöf í allskyns grauta, kökur, pönnsur, múffur. Fyrir þá sem hafa ekki aðgang að slíkum posum er vel hægt að nota kanil, múskat, engifer pipar og negul í gumsið – ef þið eigið lager af kryddi í skápunum.

 

Piparköku-kaffibollakaka

Piparköku-kaffibollakaka

1 skammtur

40g haframjölshveiti (haframjöl malað í blandara)
1 msk kókoshnetuhveiti (t.d Dr. Goerg frá Yggdrasil)
1 tsk lyftiduft
2 tsk NOW erythriol (Lifandi markaður, Nettó, Fjarðarkaup)
1 tsk Dr. Oetker piparkökukrydd (eða 1/4 tsk af múskat, negul, kanil, engifer)
1 tappi vanilludropar
3 msk ósætuð eplamús
2 msk möndlumjólk

Piparköku-kaffibollakaka-3

 

1. Hræra öllu gumsinu saman með gaffli í djúpri skál sem hefur verið smurð að innan með PAM spreyi eða kókosolíu.
2. Inn í kjarnorkuofninn og örrað í spað í 3-4 mínútur.

 

NOW erythriol

Vanillukrem

75g kotasæla
75g skyr/kvark/grísk jógúrt
2 tsk NOW erythriol
NOW french vanilla dropar

1. Hræra saman með töfrasprota þar til kotasælan hefur losnað við allar unglingabólurnar og orðin slétt eins og barnsrass.
2. Smyrja yfir kökuna og gúlla í ginið.

Piparköku-kaffibollakaka-2

Maður kemst í klikkaðan jólafíling að gúlla piparkökubragðið í hollustugúmmulaði í morgunsárið, og engin þörf að dýfa sér ofan í smákökustampinn í búrinu.