Tómur tankur

Brenni ég meira með því að gera þolæfingar á fastandi maga? Skiptir það máli að vera með tóman maga til að brenna meiri fitu?

Þessi spurning ríður húsum undanfarin misseri og kemur mjög oft inn á borð Naglans. Hún er sprottin af algengum misskilningi sem er troðið inn í hausinn á sótsvörtum pöpulnum af glanssneplahöfundum sem lepja upp nýjustu tækni og vísindi úr misgáfulegum heimildum. Ennþá situr föst auglýsingaherferðin fyrir fitutapskeppni frá fæðubótarefniskompaníi. “Ef þú brennir á fastandi maga ertu að nota fituna til að knýja þig áfram.“

Rétt er það að fastandi brennsla nýtir fitu sem orkugjafa en þetta snýst ekki eins mikið um hvaða eldsneyti er notað til að knýja okkur áfram (fita vs. kolvetni/glýkógen) heldur hve miklu við brennum á æfingunni.

Eins og Naglinn röflar sífellt um,  fitutap snýst hitaeiningar sem fara inn í kerfið vs. þær sem eru skildar eftir í rækt og daglegri virkni. Þrjúhundruð kvikindum sbrennt eru alltaf þrír hundar, hvort sem þessar lufsur koma frá fitu eða glýkógeni.

Því betur hlaðin af orku sem við erum því betur getum við spænt eins og vindurinn.
human-hamster

Svarið er því NEI, það þarf ekki að gera þolæfingar á fastandi maga til að brenna meiri fitu og í flestum tilfellum er það ekki æskilegt. Ef hamagangur á Hóli er satanískur getur það beinlínis verið skaðlegt fyrir framvindu mála.

Sprettæfingar (interval), hringþjálfun (circuit), Boot Camp, Cross Fit og aðrar þolblandaðar æfingar á hárri ákefð (80-95% af hámarskspúlsi) er alls ekki ráðlegt að gera á fastandi maga því það leiðir til tætingar á kjöti og hvað þýðir það? Það vita dyggir lesendur…. lægri grunnbrennsluhraði og tár í kodda.

Prófið að spæna spretti á galtómum tanki og berið það saman við spretti eftir máltíð. Þið getið hlaupið miklu hraðar með bensín í æðunum en innanétin af hungri. Þú sprettar eins og vindurinn með snæðing í mallakút ERGO þú tekur betur á því á æfingunni ERGO fleiri hitaeiningum brennt.

Það sem skiptir máli er hversu margar karólínur fara í átökin og því fleiri sem eru nýttar, því stærri verður hitaeiningaþurrðin sem þarf til að bræða smérið.

Þú brennir ekki fleiri hitaeiningum með því að gera þolæfingar á fastandi maga og við má bæta að eldsneytið sem er notað á æfingu tengist mun frekar ákefð æfingarinnar frekar en tímasetningu hennar.

Fyrir Jón og Gunnu er í lagi að fara fastandi í æfingar á lágri ákefð (65-75% af hámarkspúlsi) en það er í engum skilningi nauðsynlegt fyrir meiri tálgun.