Hangið á hungurmörkum

Naglinn gerði eitt sinn óvísindalega könnun á hvað fólk telur eðlilegan hitaeiningafjölda fyrir fitutap og hefur grátið sig í svefn yfir þeim fjölmörgu sem töldu 1000 eða 1200 kvikindi vera ákjósanlega tölu til starfans.
Jú það er fínt ef þú ert 50 kíló en þá er harla ólíklegt að þar sé mikið af fitu að finna.
En fyrir fólk í yfirþyngd sem vill missa fitu til að komast nær kjörþyngd er slíkt 1200 kaloríu mataræði nær því að vera sultur og seyra.

Hver vill lifa á hungurmörkum? Af hverju að gera lífið að slíkri kvöl og pínu??

1200 lufsur nægja rétt til að halda lágmarks virkni líkamans gangandi hjá meðal manneskju og þá á eftir að knýja áfram átökin í ræktinni, og halda þér gangandi í gegnum vinnudaginn, sjáum börnin, versla í matinn og ég veit ekki hvað og hvað.

Naglinn verður döpur í hjartanu að heyra að enn sé sárasaklausum pöpulnum talin trú um að 1200 hitaeiningar sé lykillinn sem opni Sesamhliðið að lýsisleka á ógnarhraða.
Þetta endemis kjaftæði er sagt bæði við 100 kg karlmann og 60 kg konu.

HALLÓ!!! Fitutap er ekki ‘ein stærð hentar öllum’.
Síður en svo!

to-lose-weight-eat-this-not-thisÁkjósanlegar hitaeiningar fyrir fitutap fer eftir líkamsþyngd, og er því afstæð við hvern og einn.
Hummer eyðir meira bensíni en Yaris. Sama gildir um mannskepnuna. Það krefst meiri orku að knýja áfram stærri líkama.
Efnaskiptin fara í hönk þegar við kroppum eins og spörfugl, því líkaminn túlkar að nú sé hungursneyð og harðneitar að láta fituna af hendi því hún er langtímaforðinn.

Honum er hinsvegar skítsama um vöðvakvikindin, þau eru hvort sem er svo orkufrek og hrifsa til sín þessar örfáu skitnu kaloríur sem láta sjá sig. Afleiðingin er snarlækkaður grunnbrennsluhraði þar sem vöðvatutlurnar eru á bak og burt. Þyngdin hefur þar af leiðandi lækkað (vöðvavefur er þyngri en fituvefur), og viðkomandi hoppar hæð sína af gleði í villu og svíma.

 

eina hindrunin

 

Adam er nefnilega ekki lengi í Paradís þegar í ljós kemur að lati fituvefurinn er enn á sínum stað og fötin passa alveg jafn illa. Frekari tilraunir til fitutaps í framtíðinni eru vægast sagt grátlegar, enda eru vöðvarnir sem sjá um að halda grunnbrennslunni í botni ekki lengur í partýinu og því þarf að lækka og lækka kaloríur til að grennast. En hversu mikið neðar geturðu farið ef þú byrjaðir í 1200 hitaeiningum? Ætlarðu niður í 1000 kvikindi, sem er varla nóg til að halda meðalstórum hvolpi gangandi?

Þess vegna er betra að byrja í eðlilegum fitutaps hitaeiningum án þess að hengja þig á horrimina með bláa tungu af sulti og tæta upp allt kjöt.

Til að finna út æskilegan hitaeiningafjölda til að missa fitu er best að finna út hvar þú viðheldur núverandi þyngd.
Þumalputtareglan er að margfalda  líkamsþyngd* 30-32. Draga svo 20% frá þeirri tölu og þá ertu komin(n) með ágætis viðmið fyrir fitutaps hitaeiningafjölda.

Tökum dæmi um 80 kg einstakling –> 80 kg * 32 = 2600 hitaeiningar.

2600 * 0.80 (20% hitaeiningaþurrð) = 2000 hitaeiningar.  Fyrir þennan Jón Jónsson sem er 80 kg að þyngd er því gott að byrja að smjatta á 2000 yfir daginn ef planið er að skafa mör  .

Það er svo mikilvægt að að fylgjast með árangri eða árangursleysi og gera þá breytingar ef þess gerist þörf.

Ertu að missa á eðlilegum hraða, 300-500 grömm á viku? Eða ertu að missa of hratt og hætta á að ganga á vöðvamassann? Ertu kannski ekkert að missa?

Til að fylgjast með árangri er ráðlegt að mæla sig á 2-3 vikna fresti til að geta gert breytingar upp eða niður eins og þarf. Það er nægur tími fyrir líkamann að svara þér, en ekki of langur tími til að spóla í sama farinu ef ekkert er að mjakast.

Í guðs bænum hættið að hlusta á bábiljuna um 1200 hitaeiningar…það passar fínt ef þið eruð í dauðadái.
Ef þið fáið slíkt plan í hendurnar….hlaupið, hlaupið eins og vindurinn.