Bakaður bananabrauðsgrautur

Brunch, þessi samblanda af árbít og hádegisverði þar sem allskonar gúmmulaði er skellt á borðið og eðalfólk mætir í heimsókn til að sitja á þjóhnöppunum í nokkra tíma og hlaða í vömbina er eitt það skemmtilegasta át sem Naglinn veit um. Slíkar sitúasjónir eru útópía fyrir átsvín og svartholið nálgast jafnvel að fá fylli sína eftir þrjá tíma af gegndarlausu áti.

Þegar von er á eðalgestum í brunch reimar Naglinn á sig svuntuna og skellir í allskyns gúmmulaðishollustu (og óhollustu). Sykurlaust bananabrauð (uppskrift væntanleg) er einn unaður sem lítur dagsins ljós í eldhúsi Naglans við slík tækifæri og meiri öööönaður finnst vart á byggðu bóli.

Með smjöri og osti… hjálpi mér allir heilagir.

Þessi grautur var því inspíreraður af þessu ójarðneskja sykurlausa bananabrauði.

Bananagrautur-1

Bakaður bananbrauðsgrautur

1 skammtur

40g haframjöl
2 mæliskeiðar HUSK
1/2 tsk lyftiduft
klípa salt
1-2 tsk Chia fræ
banani skorinn í bita eða stappaður (Naglinn vill bitana til að fá undir tönn)

1/2 tsk negull
1/2 tsk engifer
1 tsk kanill
4-5 dl vatn (fer eftir þykktarsmekk)

Gumsa öllu saman í eldfast mót. Hræra aðeins saman með gaffli.

Baka á 170°C í 35 mínútur.

Banangrautur-2
Tómur unaður með vanillu-eggjahvítuflöffi.

Bon appetit!!