Naglinn kallar skipulögð frávik frá beinu brautinni “frjálsar máltíðir” en ekki “svindl” því svindl er neikvætt hlaðið orð og til þess fallið að valda kvíða, sektarkennd og niðurrifi. Ef þú borðar hollt 90-95% tímans, mætir samviskusamlega í hamagang og sinnir hvíldinni, áttu að leyfa þér sukkað og sykrað hliðarspor af og til. Það er partur af lífsstílnum – þú ert ekki í munkareglu í ofanverðum Himalayafjöllum.
Eitt skemmtilegasta “frjálsa” át sem rennur ofan í endalaust svarthol Naglans er sveittur majónesusmurður hammari á helstu hamborgarabúllu København – Halifax. Djúpsteiktir kartöflubátar, majónesu aioli og átta kíló af tómatsósu bíða klár á kantinum að vera slátrað í græðgiskastinu.
En slík sukkveisla af milljón kaloríum myndi fljótt smyrja ansi þykku lagi af sleni á sálina og lýsi á lærin ef snædd oftar en góðu hófi gegnir og því takmörkuð við nokkrum sinnum á bláu tungli.
En maður getur samt notið lífsins lystisemdaán þess að sporðrenna of mörgum einingum til vermingar. Inn kemur hollur Naglavæddur hammari sem gleður sinnið á hversdagslegum janúardegi.
Hollur hammari og kartöflubátar
1 kvekendi
4% hakk (fæst í Kjöthöllinni)
Season All, sjávarsalt, pipar eða hvaða krydd sem kitlar pinnann
5% ostur
iceberg kál
Sykurlaus tómatsósa (t.d Sollu)/salsa/sinnep/sykurlaus BBQ
5% sýrður rjómi
sneiddir tómatar
heilhveiti hamborgarabrauð
1. Móta litlar bollur úr 100g af hakki. Krydda vel og fletja aðeins út.
2. Steikja borgara í George Foreman grilli í 5-6 mín, á pönnu eða útigrilli í 2-3 mín á hvorri hlið. Undir lokin á steikingu skella 1-2 sneiðum af horuðum osti og leyfa að bráðna… jömms
3. Hita hamborgarabrauð í ofni eða ofan á brauðrist
4. Smyrja brauð með tómatsósu/salsa/sinnepi/sýrðum/bbq
5. Raða á brauðið: kál, gúrka, tómatar, rauðlaukur eða hvaða grænmeti sem gleður sjálfið, ásamt sjálfum borgaranum
Kartöflubátar
Kartöflur skornar í báta
Pam sprey
Pommes Frites krydd/pipar/sjávarsalt
1. Hita ofn í 220 °C
2. Setja kartöflubáta í poka, hella kryddi ofan í pokann og hrista eins og vindurinn.
3. Hella krydduðum kartöflum í ofnskúffu og spreyja með PAM (má sleppa)
4. Baka í 25-30 mínútur eða þar til gylltar og krönsjí að utan. Gott að róta aðeins í kartöflunum 1-2 sinnum meðan þær bakast.
Unaðslegar með nóg af tómatsósu eða horaðri kokteilsósu (sýrður + tómatsósa).