Krullað í beygjurekkanum

Nú þegar herskarar af nýársheitungum streyma inn í ræktarsali landsins, er ekki úr vegi að skerpa aðeins á hvaða hegðunarreglur er mikilvægt að hafa í hávegum innan um galvaníseraðar járnstangir og gúmmíhúðaðar lóðaplötur.
Því ef eitthvað fær hnakkahárin til að rísa, hnefana að kreppast og augun til að skjóta gneistum er það þegar fólk gengur ekki frá lóðum, stöngum og plötum eftir sig í ræktinni.
Hvaða réttlætingar fara í gang í gráa efninu hjá þeim sem tekur 100 kg í hnébeygjum og skilur svo fjórar 20kg plötur fyrir næsta kvikindi að tína af svo viðkomandi geti brúkað stöngina??

Maður spyr sig, hvernig gengur þetta fólk eiginlega um heima hjá sér? Eru skítugar nærbuxur látnar safnast upp á baðherbergisgólfinu og óhreinir diskar skildir eftir á matarborðinu?“Það tekur einhver annar þetta upp eftir mig.”

Sturtar það ekki niður eftir sig? „Næsti maður gerir það bara áður en hann þarf að pissa“.
Liam-Neeson-racking-weights
Naglinn hefur tekið tímann hversu langan tíma tekur að strippa stöngina af 2-3 plötum: heilar 60 sekúndur- það er allt og sumt.
Að ganga frá handlóðum– að labba alla vegalengdina frá bekknum að rekkanum – tekur u.þ.b 30 sekúndur.
Sem þýðir að tíminn sem tekur að ganga frá eftir sig og setja upp nýja æfingu eru skitnar 3-4 mínútur sem er akkúrat ákjósanleg hvíld frá einni æfingar til næstu.

Það þykir ekki vænlegt til árangurs að fara eins og með sinnep í rassinum í gegnum allar æfingarnar, vöðvarnir þurfa hvíld til að safna kröftum og jafna sig milli mismunandi æfingaáreita.  Og þessar mínútur sem fara í frágang og þar með tillitssemi við náungann nýtast fínt í þessa hvíld.

Hið sama gildir um losun á líkamsvessum. Ef þú svitnar eins og gylta á fengitímanum í átökunum er lágmarkskurteisi að spreyja örfáum dreitlum í þerripappír og strjúka Dauðahafið sem þú skildir eftir þig á bekknum. Það er fátt ógeðfelldara en að bjóða náunganum uppá að vera í kontakt við þín úrgangsefni.
Ef við setjum upp dæmið þannig að það eru 6-7 mismunandi æfingar á prógramminu þínu, þá lengir það tímann í ræktinni um c.a 8 – 10 mínútur í mesta lagi að ganga frá lóðum og stöngum og þurrka svitapolla.
Er fólk í alvöru svo rosalega upptekið? Eru leiðtogar helstu iðnríkja heims að bíða eftir þér á G8 fundi?
Er heimsfriðurinn í húfi ef þú labbar út úr ræktinni 10 mínútur yfir heila tímann?? 
Í alvöru talað??
Já og ekki æfa bíseppinn í hnébeygjurekkanum, það getur losað um ofbeldishneigð í reyndum ræktarrottum.
no-curling-in-the-squat-rack