Jólastál

Jól á Norðurbrú í Kaupmannahöfn eru ekki beint tradisjónell í þeim skilningi að hér eru fleiri bissniss staðir með opið en maður á að venjast frá Fróni. Hér má fara í ljós, kaupa kebab, fara til slátrarans, leigja vídjóspólu, kaupa grænmeti og ávexti og fylla enn betur á vömbina með slikki úr nammibarnum. En það eina sem skiptir Naglann máli er að ræktin er opin á jóladag enda enginn tími eins mikilvægur og akkúrat í kringum jól og áramót að halda rútínunni í ræktinni og búa til innistæðu fyrir törkí og tilbehör, sörum og möndlugraut.

Rifið í járnið á jólunum eins og aðra daga

Rifið í járnið á jólunum eins og aðra daga

Við lyftingar brjótum við niður vöðvana og líkaminn bregst við með að byggja stærri og sterkari vöðva til að höndla næstu átök.

Með því að rífa í stál á áthátíðinni miklu  nýtir líkaminn orkuna úr þessum milljón hitaeiningum sem við sporðrennum til að byggja upp og gera við niðurrifna vöðvana og við brennum meira en ella því eftir satanískar járnrífingar keyrist grunnbrennslan upp í góða 24-48 tíma á eftir þökk sé hinu dásamlega fyrirbæri EPOC.

Og hvað er þetta EPOC fyrir nokkuð ???

Þegar við lyftum lóðum erum við að vinna á loftfirrðu álagi. Við æfingar á loftfirrðu álagi fer líkaminn í svokallaða “súrefnisskuld” eftir æfinguna.

Þá er hann á fullu að hreinsa upp úrgangsefni sem safnaðist upp á æfingunni sem hann gat ekki gert á meðan æfingu stóð þar sem hann vantaði súrefni til verksins.Þetta ferli þýðir aukna brennslu eftir að æfingu lýkur og kallast því skemmtilega nafni EPOC (Excess-Post-Exercise-Oxygen-Consumption), og getur varað í 2-24 tíma eftir æfingu.