Jólahugvekja

Aðfangadagur jóla er einmitt í dag.  Alltof margir líta á næstu þrettán daga sem síðustu jól í sögu jarðarkringlunnar og troða í skjóðuna á mælikvarða. Mayarnir höfðu nefnilega rangt fyrir sér gott fólk, það koma jól eftir þessi jól.

Margir detta í þann skítabransa að sleikja sig á sultarrimina yfir daginn, hangandi á kálblaði og gúrkusneiðum til að eiga inni fyrir fleiri tonnum af jólasteik og rísalamandi um kvöldið. Slík hegðun býr ekki til annað en vítahring af neikvæðri hegðun, þar sem þú er orðinn svo hungraður, sturlaður og svekktur um kvöldmatarleytið að líkurnar á að éta allt sem ekki er niðurneglt snaraukast.  Þú borðar því mun meira en þú ætlaðir þér og niðurrifshugsanir, samviskubit og óhamingja hellast yfir sálartetrið í kjölfarið. Sultarólin þrengd inn í innsta gat aftur á jóladag með limmissprungu yfir familíudinnernum og spírallinn hefst að nýju.

Borðaðu allar máltíðirnar þínar yfir daginn eins og venjulega á 2-3 tíma fresti til að halda jöfnum blóðsykri og minnka líkurnar á ólympísku ofáti við jólaborðið.  Drekktu vel af vatni yfir daginn, með veislumáltíðinni og eftir hana til að minnka líkur á bjúguðum puttum og sokknum augum af vökvasöfnun.

Staðgóður hádegisverður á aðfangadag er til dæmis lax með jólakúskús og brokkolí. Góð fita, hæglosandi flókin kolvetni, vítamín, steinefni og ég veit ekki hvað og hvað…. hollusta í hólf og gólf sem prímar mann vel upp fyrir aftangleðina.

 

Lax-kúskús

Lax með kanilkúskús og brokkolí

1 skammtur 

c.a 100g laxastykki

Kikkoman Teriayki

sjávarsalt

1 dl Lundberg’s brown rice couscous (fæst í Kosti)

2 dl vatn

kanill + vanilluduft

soðið brokkolí

 1. Lax settur í poka með Teriyaki og marinera í nokkra klst. Best að gera kvöldið áður og leyfa laxinum að dúlla sér yfir nótt í marineringu

2. Hita ofn í 200°C

3. Sjóða 2 dl vatn með kanil og vanilludufti og hella kúskús útí þegar suðan kemur upp. Lækka hitann og leyfa að dunda sér í 15 mínútur.

4. Lax settur í ofnfast mót og sáldra sjávarsalti yfir. Á meðan kúskúsið sýður henda laxi í ofn og baka í c.a 15 mínútur.

Hrár Teriyaki lax

5. Bera fram með soðnu sjávarsöltuðu brokkolí.

Þessi kombinasjón er mikill uppáhalds löns hjá Naglanum og rennur ljúflega niður mörgum sinnum í viku enda fiskneysla svo gríðar mikilvæg.

 

Lax og kúskús

 

Með þessu er upplagt að snæða horaða tzatziki eða sykurlausa sweet chili (fæst í Krónunni/Nóatúni).

2 thoughts on “Jólahugvekja

  1. Pingback: Kanilsnúður sem hækkar hamingjustuðullinn | ragganagli

  2. Pingback: Nestisblæti | ragganagli

Comments are closed