Stökkbreytta genið

Naglinn er friðelskandi skepna. En viljinn til að slá einhvern utan undir vaknar þegar setningin: “Ég vil ekki lyfta þungt því ég vil ekki verða vöðvatröll. Ég vil bara tóna mig” hrýtur af vörum náungans.
Kökkur kemur í hálsinn að sjá allt liðið í áskrift að brennslutækjum líkamsræktarstöðva. Þarna er hangið tímunum saman eins og hundur á roði “því það á að brenna fitu.”

Jú, jú vissulega þarf að stunda þolæfingar til að skafa mörinn. En það er ljótur misskilningur að það þurfi ólöglegt magn þeirra, og enn sorglegra að sjá þær stundaðar eingöngu og það á kostnað lóðasvívirðinga.
Ekki eingöngu eru þolæfingar á jöfnum hraða leiðinlegri en Alþingisumræður um aukningu þorskkvóta. Grunnbrennslan fer líka niður í Gustavsbergið og fitutapstilraunir framtíðarinnar verða álíka auðveldar og friðarviðræður fyrir botni Miðjarðarhafs.

 


Í báðum kynjum eru hormónar sveimandi um blóðið: testósterón, estrógen, prógesterón, DHEA en í mismunandi magni þó. Karlar hafa mun hærra magn af testósteróni og DHEA, en tútturnar hins vegar hærra magn af prógesterón og estrógeni.
Að jafnaði hafa konur hafa u.þ.b 10- 30 sinnum minna (fer eftir einstaklingnum) af testósteróni í líkamanum en karlmenn en það er afar mikilvægt í byggingu vöðvamassa.
Þess vegna eiga tapparnir auðveldara með að safna kjöti en skonsurnar.

En það er ekki allskostar nóg að vera karlkyns, né er það nóg að rífa í stál til að buffa sig upp.
Naglinn hefur margoft hrækt útúr sér þeirri staðreynd að orkuofgnótt í gegnum snæðinginn er einn stærsti þátturinn sem ákvarðar hvort líkaminn bætir tutlum utan á sig.

Talaðu við hvern sem rembist árið inn og út í kjötbyggingu á náttúrulegan hátt með samviskuna í botni hvort það sé virkilega svona auðvelt að byggja upp vöðvamassa og þú heldur.

 


En ef þú ert hinsvegar með stökkbreytta genið sem byggir upp svo íþyngjandi magn kjöts á þínum skrokki eftir örfáar járnrefsingar þá skaltu passa þig á lóðarekkanum. Ef þú hinsvegar ert aðeins dauðleg skepna með eðlilegan hormónabúskap, er styrktarþjálfun mun skilvirkari aðferð við að brenna fitu en að slefa á brettinu.
Grunnbrennslan eykst með auknu kjöti, og hörku átök í lyftingasalnum í 45-60 mínútur skila okkur svipaðri hitaeininganotkun og hugardrepandi skíðavélahangs. En það sem er betra er að brennslan er í botni í margar klukkustundir á eftir.

Vísindalegar niðurstöður færa frekari rök fyrir máli Naglans.

Rannsókn var gerð á rúmlega 160 konum í yfirþyngd (25-44 ára) og þær látnar stunda styrktaræfingar tvisvar í viku á meðan samanburðarhópur gerði brennsluæfingar/eróbikktíma.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að ekki einungis misstu þær meira af líkamsfitu en eróbikk hópurinn, heldur var mun minni aukning á kviðfitu hjá lyftingatúttunum tveimur árum eftir að rannsókn lauk.

Útfrá lýðheilsulegu sjónarmiði eru þessar niðurstöður mjög mikilvægar því kviðfita er ein hættulegasta fitan, þar sem hún tengist ýmsum efnaskipta- og hjartasjúkdómum. (American Journal of Clinical Nutrition, 2007, 86, bls. 566-572).

Eftir hverju bíðið þið? Snáfið af þrekstiganum og rífið í járnið!!