“Það er svo mikið vesen að borða hollt.” “Það er svo tímafrekt.” “Ég hef ekki tíma til að elda.” “Það er svo dýrt.”
Það þekkja allir þessa frasa og flestir hafa gerst sekir um að gubba einum slíkum úr sér á einhverjum tímapunkti.
Þeir sem hafa gert hollustu að lífsstíl þekkja mikilvægi skipulagningar og undirbúnings til að haldast á heilsubrautinni og skiptir þar engu hvort markmiðið er að kjöta sig eða tálga, eða viðhalda almennri heilsu.
Eins og þeir segja á útlenskunni:“If you fail to prepare, you prepare to fail” og það er víst gömul saga og ný.
Ef við ferðumst um heimsins höf, eða erum föst í vinnu og ekki undirbúin með hollt nesti, er ein með öllu úr sjoppunni á horninu oft eina úrræðið. Nú eða mötuneytið þar sem kokknum er nett sama um þínar hollustuþarfir og notar transfitusýrur eins og þær séu að fara úr tísku.
Mörgum vex það svo í augum að búa til nesti að eins og að semja frið fyrir botni Miðjarðarhafs, og Naglinn hefur heyrt ófáar athugasemdir um að þetta sé óskaplega tímafrekt verkefni sem er hin mesta firra.
Naglinn vill deila með ykkur, elsku blóm, nokkrum strategíum úr undirbúnings-vopnabúrinu sem stytta tímann í eldhúsinu til muna fyrir tímabundinn nútímamanninn.
* Henda haug af krydduðum/marineruðum kjúllabringum í ofn eða grilla í Foreman-inum og geyma í ísskáp. Þá áttu alltaf tilbúna bringu fyrir snarholla máltíð sem má skreyta með allskonar gúmmulaði meðlæti. Eins má frysta eldaðar bringur til að snara út í hallæri.
* Steikja og krydda heilan pakka af nautahakki í einu og geyma í ísskáp. Þá þarf bara að steikja grænmeti, slurka tómatpúrru og gómsætt bolognese er klárt.
*Eða… elda heilan pott af gómsætri hakkgrýtu og taka afganga með sér í vinnuna daginn eftir.
* Kaupa 1-2 kg af nauta innralæri. Krydda með Season-All og sítrónupipar og viti menn… þú átt roast beef fyrir næstu vikuna. Þegar sá gállinn er á þér sneiðirðu einfaldlega niður áætlað magn. Nú eða hendist í Kjöthöllina og kaupir tilbúið roast beef… það besta í bænum.
* Sjóða haug af hrísgrjónum, quinoa, byggi, cous cous í einu og geyma í ísskáp. Þegar þig langar í þetta sjóðandi holla korn, til dæmis til að fíra þig upp fyrir átök, hendirðu einfaldlega grjónum á disk og inn í örrann.
* Baka nokkrar sætar kartöflur í einu. Kæla og geyma í álpappír í ísskápnum. Svo kippir maður einni út, örrar, sker í bita og stráir haug af kanil yfir…. need I say more??
* Sjóða slatta af jarðeplum í einu, kæla og skella svo í Tuppó og inn í köleskab. Eru fínar kaldar eða örraðar. Má svo krydda efter smag og behag.
*Eins má baka karpellurnar í bunkum. Taktu 200-300 grömm, skerðu í tvennt eða fernt, ofan í nestispoka með þær ásamt kryddi að eigin vali og sjávarsalti. Hristu pokann ærlega, helltu teitunum í ofnfast mót og bakaðu í 30 mín.
* Enga stund tekur að búa til túnfisksalat úr horuðum sýrðum eða skyri, lauk, eggi, agúrku, ananas, sólþurrkuðum tómötum sem má svo geyma í ísskáp/kælitösku í vinnunni. Svo slurkarðu vænum skammti ofan á hrökkbrauð, hrísköku, gróft brauð og voila.. komin þessi fína millimáltíð með prótínum og kolvetnum.
* Epli, appelsínur, banani, kotasæla, skyr, hnetur, hnetusmjör og möndlur eru allt hollt og gott snakk milli mála sem ekki tekur mikið pláss í ísskáp/kælitösku þegar hungrið mikla sækir að á miðjum vinnudegi.
* Búa til nokkrar eggjahvítupönnsur í einu. Kippa svo 1-2 út í einu og afþíða í ísskápnum. Eða þeir sem hafa nægan tíma á kvöldin geta kokkað eitt kvikindi fyrir morgundaginn. Þær má geyma í ísskáp eða við stofuhita.
* Eyddu 2 mínútum á kvöldin í að setja haframjöl í potti ásamt salti, kanil, ávöxtum, hnetum, sírópi, bragðdropum og öllu hinu sem kitlar pinnann í morgunverðinum. Eina sem þarf er lífselixírinn vatn útí og grautur er klár á 5 mínútum.
*Ertu tímabundnari en kanslari Þýskalands? Notaðu 5 mínútur á kvöldin og kokkaðu grautinn tilbúinn. Það eina sem þú þarft þá að gera í morgunsárið era ð hita hann upp annaðhvort heima eða í vinnunni.
* Eitt sem er betra að gera samdægurs er að gufusjóða grænmeti, og búa til salat. Ef salat eða gufusoðið grænmeti er geymt of lengi verður það gegnsósa og miður geðslegt til átu. Sniðugt er að geyma salat í poka í ísskápnum í vinnunni.
* Taktu til æfingafötin og pakkaðu hreinu handklæði, naríum, svitó, sjampói og det hele ofan í æfingatöskuna kvöldið áður. Þá blífar engin afsökun til að fara ekki í ræktina.
Það er nefnilega bara þannig að vera viðbúin(n) eins og lítill skátadrengur kemur í veg fyrir ljóta hegðun eins og að sleppa rækt eða máltíð, grípa í Júmbó eða panta pizzu… því þá er einfaldlega ekki hægt að nota lygasögur úr hausnum sem kallast hinu fína nafni “afsakanir.”
Gerða Kristjáns
Það var einmitt ekki fyrr en ég fór að taka með mér nesti í vinnuna að ég fór að borða reglulega og láta sukkið vera….takk fyrir góðan og þarfan pistil 🙂
Kristín
skemmtileg lesning,
Kolls
þetta er alveg málið….. ekki eins og þetta sé erfit…:) þú ert snildar penni….
ragganagli
Takk fyrir hrósið og að nenna að lesa nöldrið. Þetta er bara spurning um að klípa klukkutíma af sjónvarpsglápi.. góð tónlist í eldhúsinu og málið er dautt.
Hildur Eiríksdóttir
Þessi lesning gefur mér byr undir báða vængi, gluggar opnast – sending af himnum ofan Hildur mín “í alvöru”, ég er að prenta út til að hafa hérna hjá mér á eldhúsborðinu :):):)
Pingback: Nestisblæti | ragganagli
hkg15
Reblogged this on helgakristing.