Spegill, spegill herm þú mér

Hvað sjá konur þegar þær líta í spegil?

Hnausþykk læri í gallabuxunum og breiða kálfa í nýjustu stígvélatískunni?

Rassinn alltof suðlægur og mittið breitt eins og símastaur?

Múffutoppur yfir gallabuxnastrengnum?

Verkamannahendur og þvottur ofan á þvottabrettinu?

Aumingja með enga sjálfsstjórn sem datt í súkkulaðirúsínupakkann á þriðjudaginn?

Með samviskubit í ræktinni því það tekur tíma frá fjölskyldunni,

Samviskubit yfir að vinna yfirvinnu og missa af æfingu,

Samviskubit yfir að setja ungann í barnapössunina meðan hamagangur er tekinn eftir vinnu.

 

Við konur erum áskrifendur að samviskubiti, með FIMM háskólagráður í sjálfsniðurrifi og fremjum hryðjuverk á sjálfsmyndinni sem Hamas liðar yrðu stoltir af.

Við sjáum ekki hrausta konu sem rífur í járn til jafns við drengina, tekur armbeygjur án þess að blikka auga og sprettar úr spori eins og sléttuúlfur.

Við hugsum ekki um okkur sem kjarnakvendi sem spígsporar hnarreist og sprengfull af sjálfstrausti um lyftingasalinn með sigg í lófum eftir erfiðið?

Hraust og sterk valkyrja sem beygir eins og berserkur,  deddar af offorsi og slítur upp járnið í bekknum.

Konu sem þrátt fyrir annir í vinnu og heimili hugsar um mataræðið og gúllar hollustu mest allan tímann með nokkur súkkulaðidansspor og flatbökur tilbúnar á hliðarlínunni til að næra púkann?  Hann er jú hluti af sjálfinu.

En öfundast samt útí náungann “af því hún getur borðað nammi alla daga án þess að fitna.”

Hvað er öfundsvert við að gúffa í sig óhollustu sjö daga vikunnar og stuðla að hærri blóðsykri, blóðfitu og kólesteróli?

Grannur að utan er svo langt frá að vera hraustur að innan og í mörgum tilfellum eru hinir grönnu í lélegu líkamlegu formi því það vantar holdarfarið sem ytri hvata og drífur marga áfram til að valhoppa í lífsstílnum.

 

 

 

Af hverju hanga væntingar og draumar um sjálfsmyndina eins og gínur á húsþökum hjá félögunum Nýdönskum.

Jafn óraunhæf og fjarlægar og styrking íslenskrar krónu.

Að vera heilbrigð og hraust valkyrja sem tekur bekkpressuna í nefið og beygir eins og berserkur er ekki nógu gott.

Skilaboðin sem dynja á kvinnum samtímans eru að þær eigi að vera innankroppuð hræ sem sötra græna djúsa til að dítoxa öllu sem nokkurn tíma hefur runnið ofan í kokið.
Þú átt að vera komin aftur í brækur númer núll sautján tímum eftir barnsburð eins og

Þú átt að missa 10 kíló á tveimur vikum, annars ertu ekki verðug í samfélagi mannanna.

Læri mega ekki snertast við göngu, armar líkjast ofelduðu spaghetti og rifbein talin aftan frá… þannig eru jú .

Þér skuluð algjört fráhald dýrka frá súkkulaði, kökum, snúðum, glúteini, mjólk, kartöflum, rauðu kjöti, brauði, hvítu hveiti, sykri, því slíkt er afkvæmi undirheimaguðsins, ,

Þú skalt ganga um með innantóm sultaraugu eftir fleiri vikur af prótínkúr, djúsasötri, kolvetnasvelti og duftslafri því matvælin sem eru “leyfileg” má telja á fingrum annarar.

 

Væskilslegur skrokkur innanétinn af sulti fóðraður á duftpillum og fljótandi fæði er jafn öflugur í ræktinni og þriggja daga gömul borðtuska.

 

KONA! Girtu þig í brók, snýttu samviskubitinu útum nösina, veiddu sjálfsmyndina upp úr tojlettinu

 

Sterkir rassvöðvar hjálpa þér að rífa upp réttstöðuna.

Þeir komast ekki fyrir í örþunnum pönnukökurassi.

Það þarf þykk læri til að beygja eins og skepna. Vannærð fyrirsætulæri skjálfa undir stönginni.

Breiðar hendur slíta upp þyngdirnar í bekknum.

Stórar axlir pressað meira.

Þykkir kálfar spæna upp sprettina.

Þú ert að byggja upp þinn besta líkama, ekki besta líkama jarðkúlunnar.  Þinn besti líkami getur aldrei passað í piparkökuform útlitsbrenglaðra horrenglumiðlanna… né ætti hann nokkurn tíma að gera það.

 

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s