Af hverju borðaði ég vélindað fullt?

Við fæðumst með eiginleikann til að hætta að borða þegar við erum passlega södd. Ungabarnið færir sig frá brjósti móður þegar það hefur fengið nægju sína.
En við töpum þessum eiginleika á lífsleiðinni.

Og við borðum oft yfir seddumörk…. langt yfir seddumörk.

 

Við þekkjum þetta öll.

Þegar við borðum of mikið þar til vélindað er fullt. Þar til maturinn snertir úfinn. Þar til við þurfum að leggjast í læsta hliðarlegu og hringja í mömmu.

 

Þér líður illa í maganum. Langar að hneppa frá brókinni. Með súkkulaðitaum í munnvikinu. Hálfétin steikin ýtir á þindina. Það er vont að draga andann.

Þú ert lítill í þér núna.
Sálin stútfull af systrunum samviskubiti og sektarkennd.
Sektarkennd byrgir okkur sýn til að læra af reynslunni.
Sektarkennd knýr áfram refsingar sem miðaldirnar myndu skammast sín fyrir. Svelta sig daginn eftir.
Uppbætandi hegðun eins og ómanneskjulegt magn æfinga til að brenna innbyrtum hitaeiningum.
Eftirsjá hins vegar opnar dyrnar fyrir lærdóm. Eftirsjá hjálpar okkur að læra af reynslunni til að breyta betur næst. Ekki missa af kennslustundinni. Skoðum aðstæður, hugsanir og hegðun til að læra af atvikinu.

Hér eru nokkrar spurningar til að hjálpa okkur átta okkur á af hverju við tróðum okkur út eins og þakkargjörðarkalkún í miðríkjunum

  • Hvenær kom löngunin til að borða? Hvað var ég að hugsa? Hvernig leið mér? Hvað var í gangi í umhverfinu?
  • Þekki ég eigin merki um svengd? Var ég raunverulega svöng/svangur? Hversu mikil var svengdin?
  • Var ég of svangur/svöng? Ef ekki, hver var triggerinn? Umhverfið? Líkaminn? Tilfinningar?
  • Hvað borðaði ég? Af hverju? Hafði þetta val áhrif á hversu mikið ég borðaði?
  • Hvernig borðaði ég? Hratt? Annars hugar? Af hverju borðaði ég á þennan hátt? Hafði það áhrif á magnið sem ég borðaði?
  • Sett ég mér markmið um seddumörk að lokinni máltíð?
  • Hversu mikill matur var í boði fyrir framan mig?
  • Hverjar voru hugsanir mínar þegar ég ákvað að troða magann stútfullan af mat?

 

Mikilvægasta spurningin er: Hvað get ég gert öðruvísi næst til að taka hjálplegri ákvarðanir sem styðja betur við markmið mín og gildi. 
Með aðgerðaráætlun að vopni geturðu tæklað svipaðar aðstæður í framtíðinni með betri ákvörðunum og þar af leiðandi annarri útkomu.