Næntís fyrirbærið ‘Nammidagur’

Nammidagur.

Naglinn hélt að þetta fyrirbæri hefði dáið drottni sínum á níunda áratugnum ásamt Sódastrím og vídjóspólunni.

En svo virðist að þessi dagur lifi enn góðu lífi.

Þessi dagur þar sem kaloríur telja ekki.
Þar sem allt er leyfilegt.

Þessi dagur þegar Hagkaup breytist í lögmál frumskógarins.
Smellur í plastlokum skellast aftur í taktföstum ryþma eins og afrískur trommusláttur.
Landinn vopnaður skömmtunarskeið olnbogar sig í gegnum nammiganginn.
Hinir hæfustu lifa af… og fá allt kúlusúkkið

Verð að nýta 50% afsláttinn afsláttinn og tækifærið.
Síðasta kvöldmáltíðar syndrómið nær yfirhöndinni og pokinn barmafylltur af trítlum og bingókúlum.
Það er heil vika í næsta laugardag. Sex dagar af þjáningu þar sem nammi er bannað. Sykur er Satans. Súkkulaði er sonur Saurons. Streymir niður hlíðar Mordors til að fita þig á þriðjudegi.

Þriðjudagur eða laugardagur?

Líkaminn veit ekki hvort það sé þriðjudagur eða laugardagur.
Hann veit bara hversu mikið þú borðar yfir daginn og yfir vikuna.

Hvort heldurðu að fari betur í skrokkinn?

Að gúffa 600 grömm af Nammilands afurðum á einum degi?
600 grömmum slátrað yfir Júróvisjón.

Vélindað fyllist, augun standa á stilkum og þarf að hneppa frá.
Hnakkasviti og uppþemba.

 

Eða njóta þess að fá sér 100 grömm á hverjum degi í 7 daga?
Finnur ekki fyrir magninu í mallanum. Líður jafn vel eftir máltíð eins og fyrir.

Við erum að horfa á sama magn yfir vikuna.
Jafn margar hitaeiningar.
Einföld menntaskólastærðfræði. Engin diffrun eða tegrun.

Rannsóknir sýna að flokkun á mat í bannað og leyfilegt býr til óheilbrigt samband við mat og líkamsímynd. Hollt og óhollt. Gott og slæmt. Guðsengill eða sonur Satans.
Slík svart-hvít flokkun eykur líkur á átröskunum með vítahring af megrun
og stórum átköstum.
Að “mega ekki” býr til vanþurft og vanlíðan. Við upplifum að líða skort og hímum eins og húðskammaðir kjölturakkar að bíða eftir næsta nammidegi.

 

Lífsstílsnálgun?

Hvort heldurðu að sé líklegra sem lífsstílsnálgun?

Nammidagsnálgunin. Bannað mánudag til föstudags. Ekki arða inn fyrir munnvik. Bíða með hnúana hvíta og sjálfsagann að vopni fram á laugardag.

Og sleppa þá villidýrinu útúr búrinu og leyfa því að valsa frjálst um sykurlendur.

Eins og belja að sleppa úr fjósi í maí.
Drífa sig að klára því á morgun byrjar niðurtalningin til við “megum” aftur.

Uppfull af samviskubiti yfir að borða of mikið. Upplifum að hafa misst stjórnina.

Eða nálgun þar sem sælgæti er leyfilegt hvenær sem er í hóflegu magni. Hvað sem dagurinn heitir. Óháð hvað stendur á dagatalinu. 100 grömm á dag þar sem við setjumst niður og njótum með öllum skynfærum. Njótum með núvitund.

Þurfum ekki meira því við nammið er í boði aftur á morgun…. og hinn og hinn og hinn.

Ef þú vilt læra að umgangast mat með jafnvægi og án samviskubits þá er mataræðisráðgjöf Röggu Nagla eitthvað fyrir þig. Upplýsingar hér