Katrín og co.

Hvað dettur þér í hug þegar þú heyrir nafnið Katrín Jakobsdóttir?

Gáfuð. Málefnaleg.

 

En nafnið Vigdís Finnbogadóttir?

Virðuleg. Heiðarleg. Hugsunarsöm

 

Malala

Undrabarn. Ákveðin. Hugrökk

 

Michelle Obama

Gjafmild. Sterk.

 

Ingibjörg Sólrún

Fylgin sér. Staðföst.

 

Halla Tómasdóttir

Kjarnakona. Hlý.

 

Dettur þér ekki í hug c.a 58 kíló, 75 kíló, 20% fita, buxnastærð medium, brjóstahaldarastærð 34 A, mittisstærð  70 cm, læraummál 100 cm, slitför á maga, 350 kaloríu salat.

 

Nei?

 

Af hverju ekki?

 

Af því við skilgreinum ekki fólk útfrá númerískum viðmiðum.

Aðrir skilgreina okkur ekki heldur útfrá tölu á vigt eða númeri á brók.

Eða hvað við borðuðum í hádeginu

 

Það gerum við bara við okkur sjálf. Gegndarlaus samanburður við tölur og númer, staðla og norm. stútfull upp í kok af frústrasjón og vonleysi yfir að ná ekki númerískum viðmiðum sem miðlarnir troða í smettið á hverjum degi.  Hvað stendur innan í brók eða haldara ákvarðar virði okkar sem manneskja Tilviljanakenndar tölur sem hinar ýmsu græjur gubba útúr sér. Kaloríuteljari, fitumælir, vigt, skrefamælir og málband.

 

Hæfileikar felast ekki í lögun líkamans
Virðing er ekki mæld í númeri á brók
Dugnaður er ekki metinn í umfangi þjóhnappa
Metnaður er ekki tala á vigt
Afrek koma svæðinu í kringum naflann ekkert við

 

Fólkið í kringum þig metur þig útfrá gildum þínum. Framkomu. Karakter. Hæfileikum. Dugnaði. Metnaði. Verkum þínum.

Þú ert ekki númer.  Þú ert ekki umbúðirnar. Þú ert það sem þú gerir og það sem þú segir.