Fimm tapas… og auka salat

Naglinn var stödd á Tapas veitingahúsi í Árósum um liðna helgi.

Þjónninn kemur og tekur pöntun

Naglinn: Já ég ætla að fá fimm tapas rétti. Og auka grænmeti. Já og auka salat

Er það þá komið fyrir ykkur?

“Nei hann ætlar að panta fyrir sig” segir Naglinn og bendir á bóndann.

Bíddu, var allur þessi matur bara fyrir þig?

Uuuu…já

Þjónninn lyftir brúnum. Brosir í kampinn og segir: “Stattu upp. Leyfðu mér að sjá hvað þú ert stór?

Naglinn varð hvumsa. Hló taugaveiklunarhlátri.

En eftirá fóru heilabrotin af stað.

Þetta er ekki í fyrsta, ekki annað og ekki fimmta skipti sem þjónar verða sjálfskipaðar matarlöggur og telja hversu margar örður renna ofan í gestina.

img_0996

En það sem stuðaði í þessu tilfelli er hvaða rullu lögun líkamans spilaði í hversu mikill matur kæmi á borðið?

Að það getur ekki verið að þessi stærð af skrokki geti innbyrt megnið af kaloríum Mið-Jótlands.

Eða að það þurfi að passa línurnar og ekki borða svona mikið magn.

Sjálfskipuð megrunarlögga líka.

Er skammturinn sem kona á að borða metinn út frá stærð skrokksins.

Líkami kvenna er alltof oft almenningseign opinn fyrir athugasemdum, leiðbeiningum og stefnuyfirlýsingum.

Ef Naglinn væri karlkyns hefði örugglega ekki verið beðið um að dilla rassinum til að samþykkja slíka pöntun. Þá hefði það verið karlmennskutákn að panta sem mest af mat.

“hann er svo duglegur að borða”

Óskrifaðar reglur gilda um hvað sé félagslega samþykkt magn fyrir ákveðna þjóðfélagshópa.

Kona af þessari stærðargráðu ætti að panta nokkur kálblöð á diski og einn penan tapas.

Ef Naglinn hefði verið í miklum holdum hefði slík athugasemd verið merki um líkamssmánun.

Ef grönn kona borðar meira en vörubílstjóri í Miðríkjunum þá fjúka athugasemdirnar eins og lauf að hausti.

Í heimi þar sem skilaboð dynja á konum daglega um hvernig líkami eigi að líta út og “ekki-nógan” fær að grassera getur það aukið enn frekar á sjálfseyðingarbálið þegar holdarfar er orðinn aðalleikarinn í því hvort matarpöntun skili sér á borðið.

Borða ég of mikið. Er ég gráðugt svín. Er ég óeðlileg? Er ég afstyrmi í heimi þar sem konur borða bara salat?

Slíkar efasemdarraddir geta stuðlað að óheilbrigðu sambandi við mat og sjálfsmynd og í sumum tilfellum triggerað átraskanir.

Að vera dæmdur og undir eftirliti á meðan þú borðar getur valdið kvíða og hugarangri.

Stundum er kona bara hungruð. Stundum er kona bara með góða matarlyst. Stundum finnst konu gott að borða mikið.

Sjokkerandi staðreyndir… ég veit.

Góð matarlyst er víst ekki kvenlægt gildi.

Á tímum forfeðra okkar þegar kjöt var af skornum skammti þá kýldu karlmenn tennurnar úr konum svo þeir þyrftu ekki að deila skepnunni með kellingunni.

Kannski var frumstæður kvíði að gera vart við sig hjá félaganum. Að Naglinn myndi éta lagerinn útá gaddinn og þyrfti að loka sjoppunni.

Eða kannski var félaginn hræddur við matarsóun. Að helmingurinn yrði eftir ósnertur.

En þar veðjaði hann á rangan hest.

Því það þurfti ekki að þvo diskana. Hvert einasta atóm var sópað upp í túlann.