Þú ákveður að kíkja í heimsókn til Siggu vinkonu.
Ding dong.
Um leið og Sigga opnar hurðina horfirðu upp og niður á hana og segir:
“Ojjj. Sjá þennan maga. Og símastauralærin. Viðbjóður.”
Þið labbið inn í eldhús og setjist yfir kaffi, sem Sigga afsakar að hafi orðið aðeins of sterkt hjá sér.
“Týpískt þú. Gerir aldrei neitt rétt. Ræður ekki einu sinni við að laga kaffi“
Sigga segir þér frá að hún sé að reyna að grenna sig.
“Enn ein megrunin? Skil ekki af hverju þú rembist í þessu. Þér mistekst hvort sem er alltaf.”
Sigga heldur áfram. Hún missti tökin í gærkvöldi og borðaði of mikið af sælgæti yfir imbanum.
“Sko sagði ég ekki? Þú hefur enga stjórn. Þú ert viljalaust verkfæri og fíkill. Þú getur þetta ekki.”
Sigga biður þig um ráðleggingar um hvað hún eigi að gera núna.
“Það er langbest fyrir þig að halda áfram í sælgætinu í dag. Það er hvort sem er allt ónýtt hjá þér í megruninni”
Sigga les síðan upp fyrir þig fyrirlesturinn sem hún á að halda í vinnunni.
“Þetta er ótrúlega lélegt hjá þér. Ekki nógu faglegt. Ekki nógu djúpt. Þú munt gera þig að fífli og fólk mun baktala þig sem vitleysing. Það munu allir hlæja að þér “
Sigga sýnir þér kjólinn sem hún ætlar að klæðast á árshátíðinni.
“Þú ert alltof feit í þennan kjól. Vömbin eins og illa vafin rúllupylsa og bingóvængirnir í fullum skrúða. Þú getur ekki verið í neinu nema svörtum ruslapoka til að hlífa samfélaginu við þessari hryggðarmynd.“
Þú stendur síðan upp til að fara.
“Já ég gleymdi að segja þér að þú hefðir nú getað vaskað upp áður en ég kom í heimsókn. Ég mun segja öllum hvað það sé mikið drasl heima hjá þér.”
Svona talar enginn við vini sína. Slík ómakleg gagnrýni og andúð myndi kerfisbundið rífa niður sjálfið, svekkja sjálfsmyndina og mölbrjóta sjálfstraustið.
Og við ættum enga vini.
Við hrósum vinum okkar, hvetjum, sýnum samúð og samkennd.
En svona tölum við hinsvegar við okkur sjálf í hausnum allan daginn.
Sjálfshatur, niðurrif, sjálfsgagnrýni og aldrei nógu góð. Alltaf í neikvæðu hugarástandi með stöðugt flæði af streituhormónum um líkamann sem veikja ónæmiskerfið.
Talaðu frekar við þig eins og þú talar við vini þína.
Hrósaðu sjálfum þér. Sýndu sjálfum þér hlýju og samkennd. Sýndu samúð og umburðarlyndi.
Vertu vinur þinn í dag.