Stelpan og konan

Naglinn gantaðist fyrir skömmu á Fésbókinni um atvinnuleysi lifrar sinnar því hún fengi hvorki alkóhól, nikótín, tjöru né lyfjaskammta til að vinna úr.

Einhver skildi eftir athugasemd við þá stöðuuppfærslu um að þetta væri nú leiðinlegt líf (“Boring life”).

 

Sem betur fer þarf Naglinn ekki áfengi, sígarettur og verkjalyf til að eiga innihaldsríkt og ánægjulega tilvist.

 

Naglinn hefur nefnilega setið beggja megin borðsins, og á fullt af beinagrindum í skápnum frá unglingsárunum.

 

Naglinn er stelpan sem….

 

drakk um hverja helgi, yfirleitt báða dagana

reykti pakka á dag af Camel Lights

var handtekin fyrir ölvunarakstur

missti bílprófið í heilt ár í kjölfarið

svaf af sér áfengisdauða í eldhúsinu á Ingólfscafé

var skúruð út af skemmtistöðunum og hékk í bænum til síðasta manns með mávunum

vaknaði í partyi og reykti stubba úr öskubakkanum

líkamleg hreyfing var að skokka út í sígó

eyddi hýrunni í áfengi, leigubíla, sígarettur og þynnnkupizzur

 

Naglinn-sígó-MR

 

Naglinn er konan sem….

kýs líf án áfengis og nikótíns

dansaði á súlu á hommabar á gamlárskvöld

fer út að skemmta sér og hitta vini um hverja helgi

er komin heim eftir djamm í síðasta lagi kl 02

mætir alltaf í ræktina og rífur í járn daginn eftir djamm

ferðast nánast í hverjum mánuði og hefur skoðað króka og kima um allan heim

menntaði sig upp í þrjár sálfræðigráður

notar sparnaðinn í ferðalög, þjálfara, tónleika, fræðibækur, veitingastaði, bíó og leikhús.

 

20141116_111434

 

Þegar Naglinn komst til vits og ára og kunni betur fótum sínum forráð í meðferð áfengis var það eitthvað sem átti ekki heima í lífsstílnum. Það var því ekki “alkóhólpróblem” heldur líkamleg vellíðan sem réði þeirri ákvörðun.

 

Það má lengi deila um hvað flokkast sem leiðinlegt og skemmtilegt líf, en Naglanum þykir dapurt að setja samasemmerki milli neyslu áfengis, sígarettna og lyfja og skemmtanagildis.

Naglinn veit nefnilega frá eigin hendi hverju er verið að missa af … eða ekki….. með áfengislausu lífi.

 

20140724_145529