Við þekkjum öll dagana þar sem við vöknum og hefjum niðurrifið um leið og glyrnurnar mæna í spegilinn.
“Bumban er of stór. Rassinn of feitur. Lít út eins og illa vafin rúllupylsa í hverri einustu spjör í skápnum.”
Allir þekkja líka dagana þar sem andlitið fær sína útreið af fúkyrðum.
“Ég þarf sérstaka ferð í Slippfélagið til að sparsla yfir þessa hryggðarmynd”. “Það ætti að banna smettið á mér innan átján. Börn þurfa fylgd með fullorðnum í nærmynd.”
Oftast náum við að hrista af okkur þessar ranghugmyndir og setja merkimiða á þessar ljótu hugsanir sem “feituna” og “ljótuna”
En við erum oft minna meðvitaðri um “ekki nóguna”. Þessar neikvæðar hugsanir sem poppa upp fyrirvaralaust og ómeðvitað um að við séum ekki nóg, gerum ekki nóg, eigum ekki nóg.
Naglinn er þar engin undantekning og ‘ekki-nógan’ tekur oft gráa efnið í gíslingu.
Þyrfti að fara í doktorsnám.
Þarf að skrifa fleiri pistla.
Verð að setja inn fleiri uppskriftir.
Þarf að byrja á nýrri bók.
Fara á ljósmyndanámskeið.
Bara eitt sett í viðbót. Bara nokkrar kviðæfingar í lokin. Eitt reps enn
Ætti að fara á crossfit námskeið.
Eða byrja að æfa ólympískar lyftingar
Verð að taka þátt í Reykjavíkur maraþoninu í ágúst.
Ferðast meira á framandi slóðir.
Vera meira móðins í fatavali.
Eins og að sitja í miðjunni á formúlu 1 braut og hugsanirnar þjóta framhjá, Schumacher og Hakkinen við stýrið. Áður en við vitum af eru niðurrifsseggirnir vopnaðir sleggjum og sprengibúnaði byrjaðir að tæta niður sjálfsmyndina.
Stöðugt samviskubit yfir að æfa ekki sjö daga vikunnar, borða ekki salat í hverri máltíð, eiga ekki nýjasta röndótta vasann eða passa í spjör númer X.
Við þurfum að hætta þessari sjálfseyðingu og gera óraunhæfar væntingar til sjálfsins og ómannlegar kröfur.
Slíku fylgir ekkert nema neikvæð sjálfsmynd, depressíf lund og lágt sjálfstraust. Þannig getum við aldrei uppfyllt þrár eða langanir, því við erum stöðugt óhamingjusöm með eigið líf.
Við erum alveg nóg, gerum nóg, eigum nóg og lítum nógu vel út.