Snákaolía uppseld

Dagur í lífi Naglans 

Sítrónuvatn slurkað á fastandi maga fyrir morgunverð svo ristillinn stíflist ekki.

Þurfti reyndar að fara í fjórar búðir því sítrónur voru uppseldar. Greinilega fleiri en Naglinn sem vita hvað er hættulegt að hreinsa ekki út þarmana í upphafi dags.

Beikon, egg og mæjó í morgunverð því kolvetni eru Satans og spika mann eins og aligæs

Spurði svo pendúlinn hvort ætti að fara út að hlaupa eða rífa í járnið.

Pendúllinn sagði hlaupa.

Fyrir hlaupið tók Naglinn nokkrar hindberjaketón til að brenna sem mestri fitu í hlaupunum.

Slurkaði líka nokkra poka af heilsugeli en frændi sölumannsins var með liðagigt sem læknaðist eftir að bara nokkra skjatta af þessum undraelixír.

Heilsusteinninn

Eftir skokkið svolgraði Naglinn boost með lucuma dufti, maca dufti, frostþurrkuðum rauðrófusafa og salti úr Dauðahafinu.

Síðan lá leiðin á snyrtistofu þar sem rafmagn úr elektróðublöðkum festar víðsvegar á skrokkinn brenndu fitunni sem ekki lak af í hlaupunum.

Hádegisverðurinn samanstóð af smjörsteiktri nautasteik og bernes. Reyndar írsku smjöri því hið íslenska var uppselt. Pissaði eftir það á staut sem sagði að líkaminn væri í ketósuástandi. Hæ hó og jibbí jei!! Ketónsýrur: eitt. Glúkósi: núll. #fitubrennsla #mjóámorgun

Smá heilaþoka reyndar en nokkrar töflur af gingko biloba redda því en to tre.

Kvöldverður eftir sérsniðna matseðlinum frá lithimnugreiningunni. Drakk að sjálfsögðu jónað vatn með kvöldmatnum til að fá örugglega klösteruð mólekjúl.

Fyrir svefn gúllaði Naglinn haug af magnesíumdufti til að líkamsvökvinn súrni ekki undir sænginni. Á morgun er svo afeitrunardagur með einföldum matseðli af birkisafa og mjólkurþistli. Þetta gerir Naglinn til að hreinsa út niðurbrotsefni sem hafa tengst mólekúlum líkamans.

Síðasta verk dagsins var að setja minnismiða á ísskápinn: Kaupa króm til að beisla matarlystina og hemja sykurþörfina.

Verst að snákaolía er uppseld.