Hjá hverri ræktarrottu eru alltaf þeir í nærumhverfinu sem aldrei munu samgleðjast né hrósa þér, hvort sem það er með nýja bílinn, starfið, íbúðina, líkamlegan árangur eða breyttan lífsstíl.
Öfund er undirrót alls ills í heiminum og því miður er þessi löstur alltof algengur í fari fólks. Jafnvel þínir allra nánustu reyna meðvitað eða ómeðvitað að leggja stein í götu þíns breytta lífsstíls vegna eigin vanmetakenndar yfir sófavermingum og kókslafri.
Hverjir eru þínar klappstýrur á hliðarlínunni á braut heilsunnar?
Segir systir þín: “Gott hjá þér að sleppa súkkulaðinu og fá þér frekar epli.”
Eða segir hún: “Getur þú ekki svindlað á mataræðinu svona einu sinni, það skaðar nú varla að fá sér smá súkkulaði?”
Hvað með vini þína? Eru þeir “já” manneskjur sem réttlæta svindl og sukk með þér? “Komm on…. Þú getur nú alveg fengið þér pizzu með okkur. Hefur bara gott af því.”
Eða hrósa þeir þér fyrir staðfestu þína, jafnvel smitast af dugnaðinum og hoppa með þér í musteri líkamans í járnsvívirðingar?
Hvernig er stuðningurinn heima við? Ertu í nærandi umhverfi þar sem “hele familien” tekur þátt í heilsusamlegu lífi og gleðst yfir hollum kvöldmat og sameinast í sprikli. Eða er heimilið jarðsprengjusvæði í Írak þar sem þú ert með sorg og sút og samviskubit grasserandi í sálinni yfir ræktarferðum og kjúklingaáti?
Segir makinn við þig:“Æi þarftu endilega að fara í ræktina núna? Getum við ekki bara farið á Kennann í kvöld?”
Eða skundar viðhengið með þér í ræktina og skannar netið í leit að girnilegum heilsusamlegum uppskriftum fyrir fjölskylduna?
Rannsóknir hafa sýnt að félagslegur stuðningur heimavið og í vinahópnum er stór þáttur í að viðhalda fitutapi (Am Journ of Clin Nutr, 52, 800-807)
Hvernig er stemmningin á vinnustaðnum? Naglinn hefur heyrt hvíslað úr hornum að vinnufélagar agnúist út matarvenjur og hreyfingu hjá hollustumelum. “Hvernig nennirðu þessu? Nennirðu að hætta með þennan hafragraut, þú lætur mig líta illa út.” Í stað þess að samgleðjast og hvetja kollegana áfram á heilsubrautinni eru neikvæðar athugasemdir það sem liðið velur frekar að gubba útúr sér.
Hvers vegna er það svo að 70% af þeim sem byrja að feta brautina að breyttum lífsstíl gefast upp og falla í sama farið með kók og snúð.? Getur ein ástæðan verið að fólk sé einfaldlega að friðþægja samferðarfólk sitt með kökuáti og kókdrykkju?
Svart-hvítur hugsunarháttur er mjög algengur hjá nýgræðingum á heilsuvagninum og mörgum reynist erfitt að finna meðalhófið í hollustu og óhollustu. Örlítil hrösun af beinu brautinni, t.d með að fá sér kexköku til að þagga niður í gagnrýnisröddum náunganna, er álitið merki um eigin veikleika og ósigur. Þá sé eins gott að liggja í majónesu þar sem allt er hvort eð er ónýtt eftir eina kexköku.
Það þarf sterk bein til að halda sínu striki á heilsubrautinni og láta blammeringar um skyrát og skokk sem vind um eyru þjóta. Vertu ein(n) af þessum fáu sem standa uppi sem sigurvegarar og leyfðu slenuðum sófakartöflunum að kreppa bjúgaðar tærnar í skónum yfir þinni staðfestu og dugnaði.