Klámvæðing líkamsræktar

 

PhotoGrid_1409395762024

 

Í samfélagsmiðlafargani nútímans þar sem sjálfsmellur garga af skjánum er líkamsrækt farin að dansa tangó við klámvæðingu. Silungastútur á munni með bolinn dreginn upp að höku til að bera kviðinn. Þjóhnappar íklæddir örbrók klíndir upp við spegil og smellt af. Snurfusaðar og meiköppaðar túttur með frygðarsvip í hnébeygju.

 

 

Þetta á allt saman að hafa hvetjandi tilgang fyrir gesti og gangandi, en hafa í raun þveröfug áhrif. Jón og Gunna samsama sig ekki með olíubornum, uppstríluðum og tönuðum skrokkum með heflaðan kvið í lendum ræktar. Með hárið slegið í efnislítilli spjör og ekki svitadropi í nánd.

 

 

Það er ekki hvetjandi til heilsuhegðunar þegar dressin eiga betur heima í svefnherberginu en í ræktarsal.

 

 

Hreysti snýst um að geta nýtt skrokkinn til góðra verka. Að keppa við þyngdaraflið í að slíta upp járn með ljótuna á lokastigi. Að sigra sjálfan sig í brekkusprettum og skilja einungis eftir rassasvita og purpuralitað smetti. Að gefa allt í botn og útvíkka siglingalögsögu þægindasápukúlunnar.

 

Veruleikinn er ómálað smetti, rennandi blautur toppur og purpuralitaðar kinnar.

Lífið er grettur, geiflur og stunur.

 

Að vinna fyrir betra formi með öllum þeim styrk sem þú átt í skrokk og sál, óháð líkamsformi, brjóstastærð, rassalögun eða rifflum á kvið. Það er það sem hreysti á að snúast um.