Kaffibollaeplakaka

Eplakaka hefur alltaf skipað stóran sess hjá Naglanum og mikil nostalgía sem fylgir því áti og færir hugann aftur þegar Naglinn var títuprjónn í sveit í Þýskalandi. Heit baka með þeyttum rjóma sem bráðnar ofan í lúnamjúk eplin.  En slíkan unað er víst ekki hægt að graðga á hverjum degi…eða hvað??? Jú jú, það held ég nú…. ef þú ert með ímyndunaraflið á hæsta styrk í að gera hollustuna að rósum stráðri hamingjubraut.

Kaffibollakökur eru besta uppfinning síðan brauðristin leit dagsins ljós, og Naglinn gæti talað um þennan stórkostlega unað daglangt.
Naglinn notar reyndar djúpa skál úr bútíkunni hans Ingvars Kamprad, því það er skemmtilegra form… já Naglinn er ekki bara áferðarperri heldur líka útlits og lögunar pervert. Eitthvað af arkitekta elementum bóndans hafa greinilega smitast yfir á spúsuna.

Hættu að gera það sem þú ert að gera, og skundaðu inn í eldhús til að útbúa þessa gersemi. Þú mátt síðan senda Naglanum þakkarskeyti í flösku.
IMG_5947

Eplakaka í kaffibolla

40g haframjöl (malað mélinu smærra í blandara til að búa til haframjölshveiti)
1 msk kókosmjöl
1 tsk lyftiduft
2 tsk NOW erythriol
1/2 tsk kardimommudropar/kardimommuduft
1-2 tsk kanill
1 tsk Apple Pie Spice (keypt á iherb.com)
1 msk hreint skyr
2 eggjahvítur
2,5 msk ósætuð eplamús
2,5 msk möndlumjólk
1/2 epli (50g)

NOW erythriol

1. Blanda öllu gumsinu (nema eplinu) saman með töfrasprota og hella í kaffibolla, djúpa skál eða hvaða form sem kitlar pinnann þinn.

2. Skera eplið í litla bita, blanda saman epli, meiri kanil og apple pie spice í skál og örbylgja í 30 sekúndur.
3. Blanda eplinu saman við deigið og geisla í Örvari í 1-3 mínútur á hæsta styrk. Tíminn fer eftir hversu mikill töffari þinn Örvar er.

IMG_5938

Horaður þeyttur rjómi á kantinum, WF pönnukökusíróp drisslað yfir og þú missir málið í marga klukkutíma á eftir af hamingju.