90% reglan

Ein af stærstu hindrunum í fitutapi er skortur á fylgni við mataræðið, að halda sig við planið. Þú verður að halda þig við planið ef þú vilt að það virki, ekki satt? Það var enginn að segja að það yrði auðvelt. Það eru augljósar fórnir.

Það er ástæða fyrir því að ekki fleiri ganga um með öfundsverðan líkamsvöxt, þetta er erfitt.
En með því að plana vel, fylgja planinu og temja þér sjálfsaga geturðu byggt upp þinn besta líkama.

Áður en þú getur mælt gagnsemi hvaða prógrams sem er þarftu að íhuga hversu vel þú ert að fylgja því.
Fylgdirðu því, eða bara svona hálfpartinn fylgdirðu því? Án þess að fylgja því algjörlega geturðu ekki skýrt útkomuna.
Tengdist skortur á árangri mataræðinu? Misstirðu úr margar máltíðir? Breyttirðu máltíðum? Svindlaðirðu oft?
Við getum ekki gert breytingar til að tækla stöðnun án þess að upphaflega planinu hafi verið fylgt algjörlega eftir.

Mikilvægasti hlekkurinn í langtímaárangri er að fylgja planinu eftir. En hvað getur talist árangursrík eftirfylgni í mataræði? Töfratalan er 90%. Ef þú fylgir planinu 90% af tímanum eru líkur á árangri mjög háar.
En því meiri árangri sem þú vilt ná ættirðu að stefna að því að borða hollt meira en 90% tímans.
Það segir sig sjálft að því betur sem þú fylgir planinu eftir því meiri verður árangurinn.

Fitutap kemur fyrst og fremst í gegnum mataræði.
Lyftingar og brennsluæfingar eru mikilvægar breytur í prógramminu en eru langt á eftir mataræði hvað mikilvægi varðar. Hversu marga hefurðu séð hamast og djöflast í ræktinni en breytast ekkert frá ári til árs? Hvað er þetta fólk að gera hina 23 tíma dagsins? Það er eitthvað sem hefur áhrif á árangur þeirra og þú getur verið viss að það er eitthvað sem fer upp í munn og ofan í maga.

Flestir sem spurðir eru hversu vel þeir séu að fylgja planinu segjast vera duglegir, en er það alltaf raunin? Sjálfsblekking er nefnilega ansi sterkt fyrirbæri.
Hvað með þessar tvær máltíðir sem þú misstir úr í vikunni? Hvað með súkkulaðimolana á miðvikudagskvöldið? Teygðist ekki nammidagurinn yfir alla helgina líka?

Það er auðvelt að blekkja sjálfa(n) sig og halda að maður sé rosalega dugleg(ur), en þegar allt kemur til alls ertu kannski bara að borða hollt og rétt 75% af tímanum.
Lítið svindl hér og þar virka ekki svo hræðileg ein og sér en lítið + lítið + lítið er ekki lengur lítið heldur safnast saman yfir vikuna og verða stórt atriði sem hamlar árangri.

Ef þér finnst árangurinn standa á sér og þú ert undir 90% viðmiðinu ertu með svarið fyrir framan þig. Þú þarft einfaldlega að vera duglegri í mataræðinu.