Þriðji í ítroðelsi

Það er mánudagur, og ekki bara einhver mánudagur, það er annar í páskum og sykurþynnkan hamrar á kúpunni.
Þrátt fyrir gubbandi hjartslátt og bullandi aumingjagang í sykurhúðuðum skrokknum hamast og djöflast púkinn í núðlunni og vill draga þig aftur niður í svaðið í undirheima sykurguðsins “Það var svo gaman hjá okkur í gær þegar við slátruðum eggi nr. 6… þú stóðst þig svo vel í átinu….gerum það aftur….þú veist þú vilt það.”

Það heyja margir blóðuga baráttu við þennan fjanda í dag og báðir vilja bera sigur úr býtum.
En hvernig á eiginlega að rífa sig af blýþungu botnstykkinu eftir eggjaítroðelsi, með vömbina stútfulla af páskalambi og rjómasósu og skunda í ræktina til að prumpa út sleninu?

 

i-heard-u-like-sugar-so-i-put-sugar-in-yo-sugar-so-u-can-eat-sugar-while-eating-sugar-thumb

Það er mikilvægt að hafa í huga að þegar allt kemur til alls snýst þetta um þitt eigið val. Þú ert ekki í Guantanamo heilsunnar – þú fékkst ekki yfir þig Stóra dóm um að stunda heilsusamlegt líferni með góðu og hollu mataræði og súkkulaði í hófi.
Þú VELUR að gera það – þú getur líka valið að halda áfram að úða grímuna með Nóa og Freyju, og verma sófasettið með rasskinnunum. Þú velur í hvernig líkama þú býrð með hegðun þinni.
Það sem Naglinn telur mikilvægast í að hendast upp á afturlappirnar eftir að hafa sleikt síðustu súkkulaðislikjurnar af gólfinu er að hollustulífið sé þægileg og spennandi rútína sem gleður hjartað af tilhlökkun.
Veldu hreyfingu sem þér þykir skemmtileg en þarft ekki að draga sjálfa(n) þig með rörtöng á æfingar.

Fjölbreytni er krydd lífsins.
Ef þú étur þurran kjúlla með bragðlausum grjónum dag eftir ömurlegan dag vekur það svekkelsi í sinninu sem finnst það hlunnfarið af lífsins dásemdum.
Þá er bara einn áfangastaður í boði – uppgjöf með tilheyrandi átkasti sem á að bæta upp fyrir tapaðan tíma sem fór í grátlegt hænsnasmjatt.
Ef daglega hollustumataræðið þitt er einhæfara en eldhúsdagsumræður á Alþingi er garanterað að súkkulaðið sé sveipað ljóma almættisins í samanburði.
Vertu svolítið skapandi í eldhúsinu og prófaðu nýjar hollar gúmmulaði uppskriftir í hverri viku.
Ef þú ferð útaf brautinni meira en góðu hófi gegnir skaltu ekki leggjast í kör með snýtuklútaboxið og sængina upp að höku. Það detta allir í það af og til… ALLIR!! Líka þessir allra hörðustu – við erum öll mannleg og breysk. Það eru hinsvegar þeir sem girða brókina yfir bumbuna, bretta upp ermarnar á bjúguðum höndunum og draga rassinn á sér með alefli og handafli aftur á beinu brautina eftir hrösun sem ná árangri.

Þar sem þú liggur á þriðja degi í páskeggjaítroðelsi með fráhnepptar brækurnar uppi í sófa með samanvöðlað sellófan af eggi nr. 7 á gólfinu undir rasskinninni og kókslef útá kinn, spáðu í hvernig þér líður. Ertu í skýjunum af hamingju? Varla… Er þér ekki illt í útsprengdri bumbunni af ofáti?
Er þér ekki samt meira illt í sjálfsmyndinni sem liggur mölbrotin undir málshættinum “Batnandi manni er best að lifa”?

Niðurrifið á sjálfinu er á ólympískan mælikvarða.

Settu þá nýja spólu í vídjótækið í hausnum. Ímyndaðu þér hvernig þér líður þér spænandi sprettina þenjandi lungun til hins ítrasta.

Sjáðu þig fyrir þér rífandi í stálið með sigg í lófum og grettu í smetti.

pauline-nordin-deadlift

Rifjaðu upp hvernig þér líður eftir djöfulgang í ræktinni slafrandi í þig hafragraut og prótínsjeik.
Eins og milljón króna seðli nýstraujuðum úr Seðlabankanum, er það ekki?

Notaðu þessa mynd af þér skínandi af heilbrigði til að truntast aftur á heilsubrautina og fá aftur vellíðunar endorfínin streymandi um maskínuna. Það er betra en nokkuð súkkulaði!